Stöðugleiki sem bætir ekki hag allra er blekking

Þessa dagana eru læknar að greiða atkvæði um nýgerðan kjarasamning við ríkið. Samningurinn hefur ekki verið birtur opinberlega en öllum má ljóst vera að hann inniheldur meiri hækkanir en almenningur hefur átt kost á í þeim samningum sem gerðir hafa verið síðustu misserin.
Öllum má einnig vera ljóst að kjarasamningur lækna og samningur kennara frá því s.l. vetur brjóta þann ramma sem samið var um á almenna vinnumarkaðinum og raskar forsendum þeirrar langtíma hugsunar sem mótaði niðurstöðu þeirra samninga og samþykktir voru í febrúar s.l.
Nú koma hagfræðingar Seðlabankans og fjármálaráðherra fram og segja að semji aðrir um sambærilegar hækkanir muni það kollsteypa íslensku efnahagslífi og hafa í hótunum við almenning og segjast beita öllum ráðum til að slíkir samningar nái ekki fram. En hvað er efnahagslegur stöðugleiki ef verðbólgan er eini mælikvarðinn?  Er það efnahagslegur stöðugleiki þegar þeir ríku fá sífellt stærri og stærri hluta þjóðarkökunnar á kostnað þeirra sem minna hafa? Svarið er NEI, það ríkir ekki efnahagslegur stöðugleiki þegar hann byggist á auknum ójöfnuði. Ef stöðugleikinn leiðir ekki til þess að hagur allra batni er hann blekking og hlýtur að leiða til aukinna átaka í landinu.
Stéttarfélögin á almennum vinnumarkaði knúðu sveitarfélög og ríki til þátttöku í gerð síðustu kjarasamninga sem hafði það að markmiði að koma verðbólgunni niður fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans. Stéttarfélögin gerðu þetta í trausti þess að stjórnvöld tryggðu efnahagslegan jöfnuð með þeim tækjum sem þau hafa yfir að ráða.
Stjórnvöld hafa ekki staðið við sinn hlut og það er ekki síst það sem veldur miklum titringi á vinnumarkaði og gerir nýja kjarasamninga erfiða.
Ef allir hefðu staðið við sitt værum við að undirbúa nýja kjarasamninga til lengri tíma en í staðin erum við að sigla inn í mikla óvissu sem væntanlega mun enda með átökum á vinnumarkaði.
En þrátt fyrir þessa staðreynd og öllum séu ljós mistök stjórnvalda þá heldur fjármálráðherra áfram að höggva og boðar nú að afnema skuli fjölþrepa skattkerfi. Stéttarfélögin hafa lagt áherslu á að skattkerfið sé tekjujafnandi og það er ástæðan fyrir því þau hafa lagt áherslu á fjölþrepa skattkerfi enda er það þekkt um alla Evrópu. Þrepakerfið hefur þann tilgang að jafna á milli þeirra sem lægri tekjur hafa við þá sem hæstar tekjur hafa.
Þegar þessar áherslur fjármálaráðherra eru lagðar saman við það hvernig afnám vörugjalda var fjármagnað þ.e. með hækkun virðisaukaskatts á nauðsynjavörum, ætti öllum að vera ljóst hver stefna stjórnvalda er. Létta skal af þeim sem meira hafa á kostnað þeirra sem minna hafa.
Miklar væntingar eru tengdar komandi kjarasamningum, margir starfshópar fóru illa út úr kreppunni og telja að nú sé komið að því að fá leiðréttingu sinna mála. Síðustu samningar ríkisins hafa sett málin í nýjan farveg. Nú eru stéttarfélögin að móta sína stefnu varðandi endurnýjun kjarasamninga og óhjákvæmilegt að hún mótist af samningunum við kennara og lækna en ekki síður af stefnu ríkisstjórnarinnar sem vinnur markvist að því að auka ójöfnuð og misskiptingu í þessa litla landi.