Nú þegar við kveðjum árið 2014 er gott að horfa til baka en ekki síður horfa til þeirra tækifæra sem nýtt ár ber í skauti sér.
Árið 2014 hefur verið okkur Íslendingum að mörgu leyti hagsælt, við höfum búið við meiri efnahagslegan stöðugleika en við eigum að venjast, kaupmáttur hefur farið vaxandi, atvinnuleysið hefur haldið áfram að minnka og við höfum búið við meiri hagvöxt en margar nágranna þjóðir sem við berum okkur saman við.
Ytri skilyrði hafa verið okkur að mörgu leyti hagstæð, t.d. lítil innflutt verðbólga og olíuverð hefur lækkað mikið á árinu. Að einhverju leyti geta þessi ytri jákvæðu skilyrði verið skammvinn en gott á meðan er og þau hafa auðveldað okkur að ná þeim markmiðum sem við settum okkur með kjarasamningunum frá í desember 2013.
En þrátt fyrir að árið 2014 hafi verið Íslendingum hagsælt er langt í frá að búið sé að vinna upp þann mikla skaða sem launafólk varð fyrir í hruninu, auk þess sem ýmsar aðgerðir sem stjórnvöld hafa verið að grípa til, koma illa við almenning og færa okkur til baka en ekki fram á veginn.
Um áramótin tók gildi hækkun á virðisaukaskatti sem hækkar fyrst og fremst verð á nauðsynjavörum s.s matvöru og afþreyingu. Einnig liggur fyrir að stjórnvöld hafa ákveðið að stytta bótatímabil um 6 mánuði hjá þeim sem hafa verið atvinnulausir um lengri tíma. Ákveðið hefur verið að skerða framlag ríkisins til endurhæfingar og framundan er að leggja af starfsemi Starfs sem hefur séð um virkni þeirra sem hafa verið atvinnulausir.
Allt eru þetta aðgerðir sem snerta fyrst og fremst þá sem veikast standa í samfélaginu og munu leiða til aukins ójöfnuðar og veikja undirstöður velferðarsamfélagsins.
Í upphafi nýs árs munu hefjast viðræður um endurnýjun kjarasamninga. Nú er ljóst að almenningur bindur miklar vonir við nýja kjarasamninga og treystir því að þeir muni leiða til verulegra kjarabóta enda stund réttlætisins loksins runnin upp. Heyrst hafa kröfur frá einstökum stéttarfélögum um að launataxtar hækki um allt að 60.000 kr. á mánuði en önnur nefna tuga prósenta hækkanir. Þessar háværu kröfur taka mið af þeim kjarasamningum sem einstakir hópar hafa verið að gera, en ekki síður af brýnni þörf fyrir að lyfta verulega launum þeirra sem eru á umsömdum kauptöxtum, en sá hópur hefur farið stækkandi undan farin misseri.
Það ættu allir að geta sammælst um að grípa þurfi til róttækra aðgerða þegar það liggur fyrir að stofnanir og fyrirtæki eru að greiða starfsfólki 214.000 kr. í mánaðarlaun og iðnaðarmönnum um 277.000 kr. Krafan hlýtur að vera að fólk geti framfleytt sér og sínum af þeim launum sem samið er um.
Það eru miklar væntingar bundnar við komandi kjarasamninga og ekki ólíklegt að gripið verði til aðgerða til að ná fram ásættanlegri niðurstöðu.
Kúnstin við gerð kjarasamninganna er að ná fram verulegum kaupmáttarbata en viðhalda jafnframt efnahagslegum stöðugleika. Nýtt ár býður því upp á allt í senn ögrandi og spennandi verkefni fyrir íslenska verkalýðshreyfingu.
Samiðn óskar félagsmönnum sínum gleðilegs nýs árs og þakkar samstarfið á liðnu ári.