Hilmar Harðarson, formaður Félags iðn- og tæknigreina og Samiðnar skrifar leiðara í nýútkomið Fréttabréf FIT þar sem hann fer yfir gildandi kjarasamninga og leggur mat á stöðuna fyrir komandi kjaraviðræður.
„Eins og félagsmönnum er líklega í fersku minni var gengið frá kjarasamningum á aðventunni í fyrra. Gerður var svonefndur aðfararsamningur, til eins árs. Lögð var áhersla á kaupmáttaraukningu og hóflegar hækkanir. Orðið aðfararsamningur felur í sér fyrirheit um frekari kjarabætur í náinni framtíð. Helstu forsendur aðfararsamningsins gengu eftir, verðbólga hefur verið lítil og verðlag stöðugt. Í heildina er batinn hægari en vonir stóðu til.
Ekki er hægt að segja annað en að það sem fram kom í fjárlagafrumvarpinu séu kaldar kveðjur til okkar launamanna. Lengi hefur verið talað um að jafna lífeyrisréttindi milli almenna og opinbera geirans en afnám jöfnunar á örorkubyrði hefur þau áhrif að lífeyrisjóðir á almenna markaðinum verða að skerða réttindi sem leiðir ekki til aukinnar jöfnunar.
Eitt af því sem veldur vonbrigðum er að þótt fyrirtækin hafi skilað góðum hagnaði hafa eigendur þeirra tekið hann út sem arð en ekki lækkað vöruverð til almennings. Þetta er dapurleg staðfesting á að fyrirtækin virða ekki þá skuldbindingu að skila út í samfélagið árangrinum sem hefur náðst vegna ábyrgrar kröfugerðar og samningsafstöðu verkalýðsfélaganna. Einnig eru vonbrigði að þótt gengi krónunnar hafi styrkst hefur það heldur ekki skilað sér í lægra vöruverði til neytenda. Ekki er hægt að ætlast til af launafólki á almennum vinnumarkaði, að það leggi fram það sem þarf til að búa til hagvöxt og arð í þjóðfélaginu en síðan komi aðrir og taki til sín alla uppskeruna. Ef til stendur að halda áfram að ræða um samstöðu í komandi kjarasamningum, verða allir að taka þátt í henni. Það er ljóst að félög á almennum markaði munu ekki sitja hjá á meðan aðrar stéttir semja um tuga prósenta launahækkanir, m.a. við ríki og sveitarfélög, eins og dæmi eru um.“