Þing ASÍ: Samfélag fyrir alla – jöfnuður og jöfn tækifæri

Um 20 fulltrúar frá aðildarfélögum Samiðnar sitja nú 41. þing Alþýðusambands Íslands sem haldið er á Hilton Nordica og stendur fram til föstudags.  Yfirskrift þingsins er „Samfélag fyrir alla – jöfnuður og jöfn tækifæri“ en reikna má með að komandi kjarasamningsviðræður setji svip sinn á þingið og marki upphafið að erfiðum vetri í kjarabaráttunni.

Í setningarræðu sinni brýndi Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ þingfulltrúa til samstöðu svo verjast mætti aðförinni að velferðarkerfinu og vaxandi misskiptingu í samfélaginu. Um kjaramál sagði Gylfi Arnbjörnsson m.a.:

„Það er alveg ljóst að í komandi kjarasamingum verður að leiðrétta kjör félagsmanna ASÍ til jafns við aðra. Það er krafa félaga okkar.

En það er einnig ljóst að það verður engin sátt um efnahagslegan stöðugleika ef hann á að byggja á vaxandi misskiptingu og fátækt og stöðugt veikari innviðum velferðarkerfisins.

Það verður engin sátt við verkalýðshreyfinguna þegar ráðist er að lífeyrisréttindum okkar, réttindum atvinnuleitenda eða skorið á tækifæri til endurkomu til vinnu eftir veikindi og slys.

Nú er einfaldlega komið nóg. Það er ljóst að ríkisstjórnin er fyrir ríka fólkið og verkalýðshreyfingin verður að beita afli sínu til að forða því að Ísland framtíðarinnar verði land misskiptingar og glataðra tækifæra. Land þar sem fyrirtækjum og efnafólki eru hyglað á kostnað alls almennings.“

Sjá nánar.