Sambandsstjórnarfundur Samiðnar, haldinn 26. september 2014, mótmælir harðlega þeim skerðingum sem fram koma í frumvarpi til fjárlaga 2015. Þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir sem eiga að bæta hag heimila er ljóst að þær snerta heimilin með mismunandi hætti og koma síst tekjulægri heimilum til góða.
Sambandsstjórnarfundur Samiðnar mótmælir sérstaklega:
• Hækkun lægra þreps virðisaukaskatts úr 7% í 12% sem eykur tekjur ríkissjóðs um 11 milljarða og fjármagnar nánast allar breytingar á hærra þrepi virðisaukaskatts og niðurfellingu á vörugjöldum
• Skerðingu réttar til atvinnuleysisbóta með styttingu bótatímabils og takmörkun á vinnumarkaðsúrræðum atvinnulausra
• Að ekki verði staðið við gefin fyrirheit um framlag til VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs
• Skerðingu framlaga til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða sem mun leiða til skertra réttinda sjóðsfélaga og auka mismun á milli almennu lífeyrissjóðanna og þeirra sem eru með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga
• Að ekki er tryggt fjármagn til að bregðast við auknum vanda í heilbrigðiskerfinu og að þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði er aukin
• Að tekjutengingar barnabóta eru auknar og útgjöld til málaflokksins lægri að raungildi en árið 2010
• Að framlög til verknámsskóla hækka minna en til bóknámsskóla og framlög til vinnustaðanáms lögð niður.
• Lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna byggingar og viðhalds húsnæðis sem mun leiða til hækkunar byggingakostnaðar íbúðahúsnæðis, auk þess að svört vinna mun aukast.
• Að húsnæðisstuðningur lækkar að raungildi og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta eru óbreyttar fimmta árið í röð þrátt fyrir að almennt verðlag hafi hækkað og kostnaður við öflun húsnæðis stóraukist.
• Að engir fjármunir séu ætlaðir til að auka fjölbreytni í búsetuúrræðum á húsnæðismarkaði, þrátt fyrir augljósa þörf og yfirlýsingar stjórnvalda.
Það er ljóst að ef ofangreind atriði koma til framkvæmda hafa orðið mikil vatnaskil í samskiptum stjórnvalda og stéttarfélaganna sem mun leiða til harðari árekstra í tengslum við gerð kjarasamninga en þekkst hefur hér á landi síðustu áratugi.
Við gerð síðustu kjarasamninga tóku stéttarfélögin, ríkisvaldið og sveitarfélög saman höndum um að koma á efnahagslegum stöðugleika með það að markmiði að verðbólga yrði undir viðmiðunarmörkum Seðlabanka Íslands. Árangurinn af því samstarfi er betri en menn þorðu að vona því verðbólgan hefur verið undir 2,5% mest allt þetta ár. Óbreytt fjárlagafrumvarp ógnar þessum árangri.
Sambandstjórnarfundur Samiðnar skorar því á ríkisstjórn Íslands að endurskoða framkomið fjárlagafrumvarp og taka upp skilvirkt samráð við stéttarfélögin og stuðla þannig að aukinni sátt í samfélaginu í stað þess að efna til ófriðar.