Umræðan um framúrkeyrslu ráðuneyta og stofnana snýst ekki eingöngu um peninga

Þessa dagana er mikil umræða um framúrkeyrslu einstakra ráðuneyta og stofnana sem falla undir þau og snýst fyrst og fremst um framúrkeyrsluna en ekki orsök hennar.
  Fjárlög ríkisins eru ákvörðuð á Alþingi á hverju ári og þar eru fjárveitingar til einstakra stofnana og ráðuneyta ákvarðaðar eftir umfjöllun í ríkisstjórn, nefndum Alþingis og í lokin eru þau afgreidd frá Alþingi sem lög.
Alþingi ákvarðar einnig hlutverk og verkefni einstakra stofnanna s.s sjúkrastofnana og menntastofnana sem og hlut samgöngumála svo eitthvað sé nefnt.
Til dæmis hefur Landspítalinn þær skyldur að taka við öllum sem sannarlega þurfa á hans þjónustu að halda, spítalinn getur ekki lokað í júní vegna framúrkeyrslu fjárheimilda og sent sjúklingana heim, sama á við um einstakar stofnanir sem sinna umönnun aldraðra og sjúkra.
Sama gildir um menntastofnanir, Alþingi hefur samþykkt að opinberum stofnum beri að tryggja öllu ungu fólki rétt til að sækja menntun og almennt lítum við svo á að sá réttur sé hluti af almennum mannréttindum. Mikill meirihluti Íslendinga hefur verið sammála um að aðgangur að menntun eigi að vera óháður efnahag en til að tryggja slíkt þarf fjármagn.
Íslendingar hafa einning verið sammála um að ríkið eigi og byggi upp samgöngumannvirki s.s. vegi og flugvelli. Slíkt kallar á fjármagn bæði til að byggja ný mannvirki og viðhalda þeim. Mikil áhersla hefur verið lögð á aukningu ferðamanna sem hefur leitt til aukins álags á umferðamannvirki sem bæði kallar á aukið viðhald og endurnýjun.
Svona mætti lengi telja en hér eru bara nefnd fá dæmi en þau eiga við flestar samfélagslegar stofnanir sem Alþingi hefur samþykkt að setja á stofn og reka með skilgreindum markmiðum og tilgangi en eru háð fjármagni úr sameiginlegum sjóðum.
Ef við viljum draga saman á Landspítalanum verðum við að draga úr þeirri þjónustu sem veitt er borgurum þessa lands og færa hana eitthvað annað. Væntanlega myndi það ekki þýða sparnað heldur tilfærslur á kostnaði og færslur frá sameiginlegum sjóðum í vasa einstaklingana. Til lengri tíma myndi það leiða til þess að aðgangur að heilbrigðisþjónustu, menntum og almennri samfélagslegri þjónustu yrði háð efnahag hvers og eins.
Það er því mikilvægt að umræðan um framúrkeyrslu einstakra stofnana sé sett í þetta samhengi. Hún snýst um hverskonar samfélag við viljum búa í. Viljum við viðhalda og styrkja það velferðkerfi sem við höfum byggt upp á löngum tíma eða viljum við færa okkur í auknum mæli til þeirrar samfélagsgerðar þar sem efnahagsleg staða einstaklinga og fjölskyldna ræður aðgangi að þeim samfélagslegum gæðum sem í boði eru hverju sinni.
Upphrópanir formanns og varaformanns fjárlaganefndar eru ekki í neinu samhengi við þessa mikilvægu nálgun en er fyrst og fremst skýrt dæmi um að mistökin liggja hjá Alþingi við gerð fjárlaganna þar sem þess var ekki gætt að hlutverk og tilgangur margra stofnana fari saman við fjárveitingar. Það er því mikilvægt að fjölmiðlar taki þessi mál föstum tökum og tryggi að umræðan snúist um grundvallaratriðin en ekki upphrópanir.
Það ekki síður mikilvægt að ætli pólitísk öfl að gera grundvallarbreytingu í íslensku samfélagi þá geri þau það fyrir opnum tjöldum en skýli sér ekki á bak við framúrkeyrslu einstakra stofnana.