Miðsumarshugleiðing

Þann 21. desember s.l undirritaði formaður Samiðnar nýjan kjarasamning við SA fyrir hönd aðildarfélaga sambandsins. Samningurinn fékk misjafnar viðtökur og var samþykktur með minnihluta atkvæða í tveimur stærstu aðildarfélögunum. Samningurinn hafði að megin markmiði að skapa efnahagslegan stöðuleika og leggja grunn að langtíma samningi þar sem kaupmáttur almennings færi stig vaxandi. Í samningsgerðinni var lögð mikil áhersla á víðtæka samstöðu um megin markmiðin enda ljóst að allir myndu njóta árangursins. Fljótlega kom í ljós að einstakir hópar s.s kennarar og starfsmenn sem tengjast fluginu myndu kljúfa sig frá og sækja meiri launahækkanir en samið var um í almennu samningunum.
Nú líður senn að því að samningstíminn sé hálfnaður og því ástæða til að skoða árangurinn.
Sé verðbólgan skoðuð ein og sér má segja að árangurinn sé mjög góður. Markmiðið var að koma verðbólgunni undir viðmiðunarmarkmið Seðlabanka Íslands en það er 2,5%. Verðbólgan mælist nú 2,43% og hefur ekki verið lægri nema í örstutt tímabil árið 2011 sé horft til síðustu 10 ára. Meðal verðbólga s.l. 10 ára er 6,17% og sé horft til skemmri tíma þ.e. 5 ára tímabils er meðaltalið 5,20%. Fyrir okkur sem erum með verðtryggð íbúðarlán skiptir miklu máli að verðbólgan sé hófleg og að sá árangur sem við höfum nú náð geti haldist til lengri tíma og skapaðar verði forsendur fyrir lækkun verðbólgunnar enn frekar.
Haldist verðbólgan innan markmiða Seðlabankans út samningstímann munu kjarasamningarnir skila lítilsháttar kaupamáttaraukningu.

En er þá ekki allt í blóma og allir glaðir?

Nei, það hafa ekki allir spilað með og þeir sem eru í betri stöðu til að knýja á um launahækkanir hafa klofið sig frá samstöðunni og farið út fyrir þann ramma sem lagður var með kjarasamningunum 21. desember s.l.
Það getur aldrei orðið sátt um að þeir sem minna bera úr bítum haldi einir og sér að sér höndum til að byggja undir efnahagslega stöðugleika en á sama tíma sæki þeir sem hafa meira umleikis og/eða eru í lykilstöðu, miklu meira en geri síðan kröfu um að njóta árangurs að fórnum hinna.
Strax eftir sumarfrí hefst vinna við endurnýjun kjarasamninga sem renna út í lok febrúar n.k. Hluti af undirbúningum er að meta árangurinn frá 21. desember, ekki síst hvernig til tókst að skapa samstöðu um þau megin markmið sem lagt var upp með.
Mikil og brýn þörf hefur skapast fyrir rími fyrir sérmál einstakra starfshópa og ekki er ólíkt að lögð verði þung áhersla af hálfu einstakra sambanda að stærri hluti samningsgerðarinnar verði á þeirra höndum en verið hefur síðustu ár. Það eitt og sér útilokar ekki samstöðu um einhvern ytri ramma þ.m.t verðbólgumarkmið.
Samiðn og SA stefna á að hefja vinnu við sérmál um miðjan september og gert er ráð fyrir að sama verði upp á teningnum varðandi aðra viðsemjendur. Æskilegt er að ljúka þeirri vinnu fyrir áramót og þá hefja vinnu við launaliðinn.
Þrátt fyrir að megin þorra samningsgerðarinnar sé lokið er eftir að semja við Samband íslenskra sveitarfélaga en kjarasamningurinn rennur út í lok júlí. Einnig er eftir að ganga frá nokkrum stofnanasamningum gagnvart ríkinu.
Kjarasamningar við sveitarfélögin eru mikið áhyggjuefni en hvergi eru launin lægri en hjá sveitarfélögum. Mjög brýnt er orðið á þessu fáist lagfæring og samkomulag náist um verulega hækkun launataxta og laun hjá sveitarfélögunum verði í takt við það sem er verið að greiða á almenna vinnumarkaði fyrir sambærileg störf.
Nú er að koma sá árstími að allflestir fara í sumarfrí og sama verður væntanlega með kjarasamningagerðina en þráðurinn verður tekinn aftur upp í september að fullum krafti.
Það er ósk Samiðnar að allir geti notið sumarsins og við komum full orku og bjartsýni aftur til starfa að loknu sumarfríi.