Miðstjórn ASÍ: Tilraunin hefur mistekist

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur sent frá sér harðorða ályktun þar sem því er lýst yfir að tilraunin um hóflegar kauphækkanir og áherslu á stöðugleika hafi mistekist sé mið tekið af þeim kjarasamningum sem undirritaðir hafa verið við aðrar stéttir að undanförnu.

„Aðildarfélög ASÍ gerðu kjarasamning við Samtök atvinnulífsins um síðustu áramót sem ætlað var að stuðla að stöðugleika í gengi og verðlagi. Samningsaðilar litu á samninginn sem tilraun sem byggði á því að breið samstaða næðist í samfélaginu um þá sýn að leggja áherslu á stöðugleika og hóflegar kauphækkanir. Samið var um 2,8% almennar launahækkanir auk sérstakra hækkana á lægstu laun.
Nú er ljóst að tilraunin hefur mistekist. Stórir hópar sem sömdu í kjölfarið hafa samið um allt annað og meira en talið var að væri til skiptana í kringum áramótin. Má þar nefna grunn- og framhaldsskólakennara sem sömdu við ríki og sveitarfélög um tæplega 30% hækkanir til þriggja ára, flugmenn sem meta nýgerðan skammtímasamning sinn við Icelandair á 8% á ársgrundvelli og háskólamenn hjá sveitarfélögum.
Miðstjórn ASÍ telur einsýnt að verkefnið í þeim samningum sem eftir á að gera á þessu ári s.s. ASÍ félaga við sveitarfélög taki mið af nýgerðum samningum við kennara, flugmenn ofl. Þá er ljóst að í þeim kjarasamningum sem losna upp úr næstu áramótum verður áherslan á að leiðrétta hlut þeirra sem setið hafa eftir í launabreytingum á þessu ári.“