Fyrsti maí er alþjóðlegur baráttudagur fyrir bættum lífskjörum og auknum mannréttindum. Baráttumálin taka mið af ástandinu í hverju landi fyrir sig en grundvallast samt sem áður á skiptingu auðsins þ.e. á milli þeirra sem vinna við framleiðsluna og þeirra sem ráða og eiga fjármagnið. Þessi barátta hefur engan endi og mun vara um ókomna framtíð, engin skýr landamæri, hún er alþjóðleg enda flæðir fjármagnið yfir landamæri eins og stórfljót og brýtur sér nýja farvegi þangað sem gróðavonin er mest.
Í aðdraganda kjarasamninganna sem gerðir voru í desember lagði Samiðn áherslu á samstöðu meðal launafólks um efnahagslegan stöðugleika, vaxandi kaupmátt og sköpun nýrra vellaunaðra starfa. Kjarasamningarnir sem undirritaðir voru í desember voru fyrst og fremst hugsaðir til að skapa betra rými til þess að byggja undir lífskjarasókn m.a með því að ná niður viðvarandi verðbólgu sem hefur verið að meðaltali tæp 5,% á ári s.l. 10 ár.
Með samningum hefur náðst góður árangur, verðbólgan er komin niður fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans eins og stefnt var að og bjartsýni ríkir um framhaldið. Þrátt fyrir þennan góða árangur í baráttunni við verðbólguna hefur enginn fullnaðarsigur unnist, sagan segir okkur að það þarf lítið til koma henni aftur á skrið.
Forsenda kjarasamninganna á almennum vinnumarkaði var að allir legðu sitt af mörkum til að byggja undir þann lífskjarabata sem íslenskir launamenn hafa svo ríka þörf fyrir eftir hrunið og hér geti kaupmáttur farið vaxandi næstu árin.
Vaxandi óánægju gætir meðal félagsmanna almennu stéttarfélaganna ekki síst vegna þess að þeir sem gert hafa kjarasamninga í kjölfar samninganna frá því í desember og febrúar hafa samið um mun meiri launahækkanir en þeir samningar tryggðu.
Yfirlýsingar ríkisstjórnar, sveitarfélaga og samtaka atvinnurekenda, sem fylgdu kjarasamningunum áttu að tryggja framgang þessarar stefnu og að allir sætu við sama borð þegar komið yrði að nýjum kjarasamningum eftir næstu áramót.
Því miður hefur þetta ekki gengið eftir og nú liggur fyrir að stórir hópar eru búnir að stíga út úr samstöðu leiðinni með samþykki sinna viðsemjenda.
Til að byggja samstöðu til framtíðar um efnahagslegan stöðugleika og batnandi lífskjör er nauðsynlegt að tryggja jöfnuð og allir njóti ávinningsins hvort sem þeir tilheyra hinum almenna verkamanni eða séu t.d. háskólakennarar. Það verður aldrei sátt um að beita bara sumum fyrir plóginn en aðrir hirði megnið af uppskerunni.
Miklar væntingar voru bundnar við kjarasamningana sem gerðir voru í desember og febrúar og með þeim myndu skapast tækifæri til að taka upp ný vinnubrögð við gerð kjarasamninga sem gætu leitt til betri árangurs og lífskilyrði á Íslandi yrðu sambærileg og þekkist á hinum Norðurlöndum innan fárra ára.
Ábyrgðin er ekki síst hjá ríkisstjórn, sveitarfélögum og samtökum atvinnurekenda.
Við megum ekki missa af þessu tækifæri en það getur ekki eingöngu verið undir félagsmönnum í stéttarfélögum á almennum vinnumarkaði komið að bera ábyrgð á því. Krafan er skýr allir verða að spila með annars eru vaxandi líkur á að tækifærið renni okkur úr greipum.
Samiðn hvetur alla launamenn til þátttöku í baráttufundum stéttarfélaganna um allt land.