Það tapa allir á óraunhæfum tilboðum

Í nýútkomnu Fréttabréfi Byggiðnar fjallar formaður félagsins Finnbjörn A. Hermannsson um framkvæmd útboða og ábyrgð aðalverktaka á undirverktökum og tilhneigingu til að bjóða verk sem mest niður öllum til tjóns.

„Í kjarasamningunum 2011 lagði Samiðn fram ítarlegar kröfur um betri framkvæmd útboða og að gera ábyrgð aðalverktaka á undirverktökum skýrari. Niðurstaða kjarasamninganna var bókun um að aðilar vinnumarkaðarins skyldu vinna á milli kjarasamninga að bættu siðgæði, útrýmingu kennitöluflakks og svartrar atvinnustarfsemi. Nokkuð hefur verið unnið í þessum kröfum milli kjarasamninga og aðeins náðst áfangi gagnvar útboðsmálum ríkisins.
Nú þegar útboðsmarkaðurinn er að rísa úr öskustónni er nauðsynlegt að þessi mál verði kláruð og þá sérstaklega ábyrgð aðalverktaka á undirverktaka. Í nánast öllum gömlu ESB löndum eru slíkar ábyrgðir til staðar. Ýmist er að aðalverktakar beri beint ábyrgð á launum, opinberum gjöldum og öryggis og aðbúnaðarmálum sinna undirverktaka, eða að haldið er eftir ákveðnu hlutfalli af öllum greiðslum til undirverktaka og þeir fá þá greiðslu ekki fyrr en þeir hafa lokið skilum á launum og opinberum gjöldum vegna sinnar starfsemi. Hver sem leiðin er þá er ljóst að aðalverktakar velja undirverktakana af kostgæfni ef þeir bera ábyrgð á þeirra fjármálum.
Hér á landi er villta vestrið í gangi. Þegar aðalverktaki hefur fengið verk hefst oft á tíðum hrunadans hans milli undirverktakanna með tölur hinna undirverktakanna til að láta bjóða sem mest niður. Í þessum hrunadansi er það oftast launamaðurinn hjá undirverktakanum sem borgar á endanum og undirverktakinn sleppur.. Hann fær ekki launin sín greidd og í mörgum tilfellum ekki nema hluta þeirra hjá ábyrgðarsjóði launa ef allt fer á versta veg eins og mýmörg dæmi sanna.
Í kjarasamningi félagsins sem samþykktur var í janúar er klausa um aðfararsamning að sérkjarasamningum. Við Byggiðnarmenn eigum að nýta okkur þetta í þaula og fara í þau sérmál sem snúa að greininni okkar. Útboðsmálin eru stór þáttur í þeim. Einnig þurfum við að ræða um fjölgun iðnnema, störf ófaglærðra í fagstörfum, öryggis og aðbúnaðarmál sem hafa farið áratugi afturábak hjá mörgum fyrirtækjum og fleira. Þetta eru kröfur sem kosta fyrirtækin ekki mikið í launasummunni en geta orðið okkur dýrkeypt náum við ekki árangri nú þegar markaðurinn er að taka við sér.
Þrátt fyrir að það sé áfangi að ná fram betrumbótum á útboðsskilmálum opinberra aðila þá þurfum við líka að ná almenna markaðinum og sveitarfélögum að borðinu og binda þá aðila í samábyrgð aðal- og undirverktaka í sömu verkum til að tryggja faglega framkvæmd útboða.
Síðast en ekki síst þarf að vinna að því að hver sem býður út verk sé ábyrgur fyrir verktakanum svo raunhæfum tilboðum verði tekið. Þau niðurboð sem tíðkast á byggingamarkaðinum eru engum til góðs og það þarf ekki að skoða þau mál mikið til að sannfærast að það tapa allir á óraunhæfum tilboðum sem tekin eru.“

 

Finnbjörn A. Hermannsson,
formaður Byggiðnar