Hagvöxturinn drifinn áfram af utanríkisviðskiptum

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands mælist hagvöxtur 3,3% á árinu 2013. Er þetta nokkuð umfram það sem flestir aðilar voru að spá, þ.m.t. Seðlabanki Íslands (SÍ) sem reiknaði með hagvexti upp á 3,0% á árinu.  Þá er þetta mesti hagvöxtur sem hefur mælst á einu ári frá árinu 2007.

Það sem er jákvætt er að það eru utanríkisviðskipti sem eru að lyfta hagvextinum enda standa þjóðarútgjöld nánast í stað á milli ára.  Afgangur af undirliggjandi viðskiptajöfnuði jókst talsvert á milli ára 2012 og 2013.  Nam afgangurinn 6,4% af VLF í fyrra og er það mesti afgangur sem mælst hefur frá því að gerð þjóðhagsreikninga hófst árið 1945, og er umtalsvert betri niðurstaða en SÍ reiknaði með (5,3%).

Þetta eru mjög jákvæð tíðindi og gefur undir fótinn með að kominn sé raunverulegur viðsnúningur í íslensku efnahagslífi og við förum að sjá raunverulegan bata hjá almenningi.
Það sem er ekki síst mikilvægt er að hagvöxturinn er drifinn áfram af utanríkisviðskiptum en ekki eingöngu einkaneyslu og byggir því á raunverulegum verðmætum.
Þessi niðurstaða styður við nýgerða kjarasamninga og gefur von um að þeir leiði til vaxandi kaupmáttar og okkur muni takist að hemja hin forna fjanda verðbólguna