Megin áherslurnar í nýgerðum kjarasamningum voru á efnahagslegan stöðugleika og vaxandi kaupmátt. Til að ná þessum markamiðum verður margt að spila saman og enginn getur vikist undan ábyrgð.
Verðbólgan er Íslands forni fjandi sem erfitt hefur reynst að kveða niður og hemja til lengri tíma litið og blossar reglulega upp og fer fram úr öllum viðmiðum sé miðað við okkar helstu viðskiptalönd.
Nú hefur það gerst í fyrsta sinn um langan tíma að verðbólguhraðinn er kominn niður fyrir viðmið Seðlabankans og mælist um 2,1%. Megin ástæðan fyrir þessum umskiptum er stöðug króna og mikið aðhald í verðlagsmálum bæði hjá opinberum stofnunum og einkafyrirtækjum. Einnig spila kjarasamningarnir stórt hlutverk og skapa ákveðna vissu þannig að árið ætti að verða nokkuð fyrirsjáanlegt.
Það er ástæða til að fagna þessum áfanga á grýttri og langri leið að varanlegum efnahagslegum stöðugleika, en jafnframt mikilvægt að hafa í huga að við höfum aðeins stígið eitt hænufet og aðalslagurinn er eftir því þá reynir ekki síst á úthaldið.
Það er einnig nauðsynlegt að hafa í huga að en er ekki búið að aflétta gjaldeyrishöftum og krónan er því í skjóli þeirra og án þess stuðnings getur hún tæplega skapað þá festu sem nauðsynleg er.
Kjarasamningarnir sem undirritaðir voru 21. desember voru til eins árs og með nýju samkomulagi er líklegt að þeir lengist um tvo mánuði. Þessi tími er hugsaður til að búa í haginn fyrir kjarasamning til lengri tíma, þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld fari að sýna stefnu til framtíðar hvað varðar peningamál þjóðarinnar.
Núverandi stjórnvöld hafna því að láta reyna á hvað felst í aðild að ESB og hafa látið hjá líða að koma með aðrar tillögur t.d í gjaldmiðlamálum þjóðarinnar. Það er hins vegar öllum ljóst að íslenska krónan getur ekki staðið ein og sér án stuðnings og því ólíklegt að gjaldeyrishöftin verði afnumin án þess að farið verði í sértækar aðgerðir til þess að vernda krónuna.
Aðgerðarleysið er ekki góður kostur, við þekkjum öll hvernig verðbólgan leikur íslensk heimili og fyrirtæki og við erum öll sammála um að í þannig samfélagi viljum við ekki búa.
Krafan á stjórnvöld er að þau sýni ábyrgð og leggi fram skýra stefnu í peninga- og gjaldmiðlamálum á næstu vikum þannig að hægt verði að taka mið af henni við undirbúning kjarasamninga sem hefst á næstu vikum.
Núverandi stjórnaflokkar höfðu ráð undir rifi hverju á meðan þeir voru í stjórnarandstöðu og því ætti ekkert að vera þeim að vanbúnaði að taka skrefin til fulls og leggja fram trúverðuga framtíðarsýn sem leggur grunn að stöðugleika og vaxandi velsæld þjóðarinnar, því að Íslendingar eru að ná góðum árangri á mörgum sviðum og eru með meiri hagvöxt en flestar þær þjóðir sem við berum okkur saman við.
Við erum að ná árangri og það er gleðilegt en við verðum að muna að við höfum aðeins tekið hænuskref og meðan stjórnvöld sitja með hendur í skauti og neita að horfast í augu við þá staðreynd að hér verður ekki hægt að ná varanlegum árangri án skýrrar efnahagsstefnu er hætt við að árangurinn verði skammvinnur.