Stéttarfélögin sem felldu kjarasamninginn sem undirritaður var 21. desember hafa undanfarna daga gengið frá nýjum kjarasamningi sem koma mun sem viðbót við þann samning. Þessi nýji samningur felur í sér breytingu á samningstímanum, hann lengist um tvö mánuði og greiðslan fyrir það kemur í formi hækkunar á desember- og orlofsuppbót um kr. 30.000. Einnig kemur eingreiðsla kr. 14.600 til jöfnunar við þá sem fengu launahækkun 1. janúar en við útreikninginn er stuðst við meðaltal heildarlauna samkvæmt Hagstofu Íslands.
Fyrir liggur yfirlýsing frá Samtökum atvinnulífsins að hækkunin á desember- og orlofsuppbót taki einnig til þeirra sem samþykktu samninginn 1. janúar enda gengið út frá því að samningstíminn verði samræmdur.
Verði það niðurstaðan ættu allir að vera eins settir í lok samningstímans.