Verðbólgan 3,1% – með því lægsta sem sést hefur

Í aðdraganda kjarasamninganna sem undirritaðir voru 21. desember s.l. lagði Samiðn áherslu á samstillt átak til að ná niður verðbólgu og koma á stöðugleika í íslensku efnahagslífi og skapa með því forsendur fyrir vaxandi kaupmætti almennings.

Það er því jákvætt að sjá í mælingum Hagstofu Íslands fyrir janúar mánuð að það hafi hægt verulega á verðbólgunni og hún sé komin niður í 3,1% miðað við 12 mánaða tímabil og 0,7% sé horfti til síðustu 3ja mánaða.

En björninn er ekki unninn þrátt fyrir góðan áfanga, við erum rétt búin að taka hænuskref inn í langt ferli og megum hvergi slaka á.

Mikilvægt er að haldið verði aftur af öllum verðhækkunum fyrirtækja og ríkisstjórn og sveitarfélög gefi hvergi eftir og mæti hækkunarþörfum með aðhaldi og sparnaði.

Nú er að hefjast vinna við gerð langtímasamnings, stéttarfélögin eru að undirbúa kröfugerð og gert er ráð fyrir að viðræður hefjist í næsta mánuði. Það eru mörg sérmál sem þarf að taka til umfjöllunar og hver niðurstaða þeirra verður mun ráða miklu um framhaldið.

Iðnaðarmannasamfélagið stendur frammi fyrir þeirri staðreynd að starfskjörin á Íslandi standast ekki samanburð við það sem býðst t.d. í Noregi. Til að fá iðnaðarmenn sem starfa erlendis til að snúa heim verður að viðurkenna þessa staðreynd og taka á henni, en það þýðir að kauptaxtar verða að endurspegla þau laun sem eru á markaði. Sú mynd sem þessir lágu kauptaxtar gefa og eru skráðir í kjarasamninga eru fráhrindandi og gefa mjög ranga mynd af raunverulegum starfskjörum, það eitt leiðir til mikils ójafnaðar og félagslegra undirboða með ódýru innfluttu erlendu vinnuafli.

Lítill endurnýjun hefur verið í mörgum iðngreinum og eru starfsgreinarnar að eldast. Þessi litla endurnýjun stafar ekki síst af starfsumhverfi iðnaðarmanna sem stenst ekki samanburð við aðrar starfsgreinar og vekur ekki áhuga ungs fólks. Hér er verkefni sem er brýnt að taka sameiginlega á og mega aðilar vinnumarkaðarins ekki fresta því lengur.