Nú er mikilvægt að orð standi

Nú liggur fyrir niðurstaða úr atkvæðagreiðslu félagsmanna Samiðnar, tvö aðildarfélög felldu samninginn en 98% félagsmanna samþykktu hann. Mikill fjöldi félagsmanna innan SGS, RSÍ, VM og LV felldu samninginn.
Ljóst er að nýgerður kjarasamningur er mjög umdeildur meðal aðildarfélaga Samiðnar þrátt fyrir að hann hafi verið samþykktur hjá megin þorra aðildarfélaganna og því mikilvægt að horft verði til þess þegar gengið verður til nýrra samninga á næstu mánuðum.
Megin veikleiki nýgerðs kjarasamnings er að hann tryggir ekki vaxandi kaupmátt launafólks miðað 2,8% kauphækkun og þær verðbólguvæntingar sem uppi eru. Almenningur trúði ekki á þær samnings forsendur sem samningsaðilar gengu út frá og mikil vonbrigði voru með framgöngu ríkisstjórnarinnar. Í upphafi kreppunnar féll kaupmáttur almennings um og yfir 20%, kreppan hefur staðið í meira en 5 ár og áhrif hennar eru farin að ganga mjög nærri mörgum fjölskyldum og því skiljanlegt að biðlund almennings sé takmörkuð, ekki síst þegar það blasir við að sértækir hópar eru farnir að taka til sín launahækkanir sem eru langt umfram það sem almenningur á kost á.
Ljóst er að það mun taka einhvern tíma í viðbót að endurvinna fyrri kaupmátt en forsendan fyrir því að almenningur sé tilbúinn að sýna biðlund er að það liggi á borðinu að allir spili með.
Nú liggur það fyrir að ekki er lengur til staðar sú breiðfylking sem stefnt var að og ljóst að niðurstaðan hefur áhrif á vinnulag næstu mánaða við gerð langtímasamnings.
Megin markmið með nýjum kjarasamningi var að skapa efnahagslegan stöðugleika og tíma til að vinna að gerð kjarasamninga að fyrirmynd frændþjóða okkar á Norðurlöndunum sem tryggðu vaxandi kaupmátt launamanna næstu árin.
Þrátt fyrir ólíkar niðurstöður í atkvæðagreiðslunni eiga stéttarfélögin sér sameiginlegt markmið sem er skapa aðstæður á Íslandi sem tryggi lífskjör líkt og best þekkist á Norðurlöndum. Í sjálfum sér er ekkert óeðlilegt við það að það séu skiptar skoðanir um leiðir að því marki en slíkt kallar á meiri og víðtækari umræðu í samfélaginu.
Í samningunum gáfu atvinnurekendur og stjórnvöld fyrirheit um efnahagslegt aðhald og stjórnvaldsgerðir til að tryggja framgang samningsins og ekki síst að samningurinn skilaði launafólki kaupmáttaraukningu.
Það er mikilvægt að staðið verði við gefin fyrirheiti gangvart þeim sem samþykktu samninginn og á það bæði við um aðgerðir stjórnvalda til að draga úr neikvæðum áhrifum gjaldskrárhækkana sem komu til framkvæmda um síðustu áramót og vinnulag vegna undirbúnings kjarasamnings til lengri tíma.
Samskipti stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda byggja á gagnkvæmu trausti og að staðið sé við gerða samninga. Miðað við þá stöðu sem upp er komin er mikilvægt að það liggi fyrir skýr ásetningur allra sem bera ábyrgð á nýgerðum kjarasamningi að við hann verði staðið og allt verði gert til að ná þeim markmiðum sem stefnt var að.
Samninganefnd Samiðnar hefur verið boðuð til fundar n.k. þriðjudag til að fara yfir stöðuna í kjaramálunum og taka ákvörðun um með hvaða hætti haldið verði á málum næstu mánuði. Eftir þann fund ætti að skýrast hvernig Samiðn hyggst vinna úr þeirri stöðu sem upp er komin.