Neysluútgjöldin hækkuðu um 7,3% en tekjurnar um 3,8%

Í nýbirtri rannsókn Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna fyrir árin 2010-2012 hækkuðu neysluútgjöldin um 7,3% á tímabilinu 2011-2012 en tekjurnar um 3,8%. Útgjöld heimilanna voru 89% af ráðstöfunartekjum og höfðu hækkað en þau voru 86% á árunum 2009-2010. Meðal ráðstöfunartekjur heimilanna voru að meðaltali 533 þúsund á mánuði.

Neysluútgjöld á heimili árin 2010-2012 voru 476 þúsund kr. á mánuði að meðaltali og höfðu aukist um 7,3% frá tímabilinu 2009-2011.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 5,2% frá 2011-2012 og hafa heimilisútgjöld aukist um 2% að teknu tilliti til verðbreytinga.

Nokkrar breytingar hafa orðið á skiptingu útgjalda en hlutfall matar- og drykkjarvöru hefur aukist og er nú 14,9% en var 14,7% 2009-2010. Hlutfall húsnæðis, hita og rafmagns hækkaði og er 27,0% en var 26,5% sem hlutfall að heildar útgjöldum en hlutfall fata og skófatnaðar lækkaði úr 5,4% í 5,0%. Aðrir liðir breyttust minna.

Ráðstöfunartekjur meðalheimilis voru rúmar 533 þúsund krónur á mánuði og höfðu aukist um 3,8% frá rannsókninni 2009-2011 (ráðstöfunartekjur eru tekjur eftir skatta). Útgjöld heimilanna hækkuðu 3,4% umfram ráðstöfunartekjur og nema útgjöld að meðaltali 89% af tekjum heimilis en voru 86% af tekjum á tímabilinu 2009-2011. Þau heimili sem falla í lægsta tekjufjórðunginn eyða að meðaltali 20,3% meira en þau afla en í hæsta tekjufjórðungum fara 73,6% í neyslu.

Meðalstærð fjölskyldna er 2,4 einstaklingar, þar af 1,6 fullorðnir og 0,8% börn. Meðalstærð húsnæðis eru 127 fermetrar með rúmlega 4 herbergjum en nokkur munur er á landsbyggð og höfuðborgarsvæðinu þar sem það er heldur minna. Um 73% heimila er í eigin húsnæði og 27% í leiguhúsnæði og standa hlutföllin í stað frá fyrri könnun.