Vika 48 liðin án samninga

Mikil umræða hefur farið fram um betri og skilvirkari vinnubrögð við gerð kjarasamninga og hefur verið horft til annarra Norðurlanda í því sambandi.

Í skýrslu sem unnin var undir stjórn ríkissáttasemjara og gefin var út s.l vor, kom í ljós að það sem helst greindi okkur frá því sem viðgengst á hinum Norðurlöndunum er ómarkvissari undirbúningur og hvað viðræður um endurnýjun hefst seint.

Miðað við viðbrögðin sem skýrslan fékk mátti vænta þess að stéttarfélögin myndu hefja undirbúning mun fyrr en áður og búið væri að láta reyna á hvort samningar tækjust áður en gildandi kjarasamningur rynni út 30. nóvember.

Samiðn hóf sinni undirbúning s.l vor með umfjöllun á þingi sambandsins og fyrir sumarfrí samþykkti miðstjórn vinnuplan sem gekk út á að sambandið yrði tilbúið um mánaðarmótin september-október með sínar áherslur.

Áætlunin gekk eftir og í byrjun október voru Samtökum atvinnulífsins kynntar áherslur Samiðnar.

Á morgun 30. nóvember rennur núgildandi kjarasamningur við SA út og er ljóst að á þeim tímapunkti tekur ekki nýr kjarasamningur við eins og margir höfðu stefnt að.

Ekki hefur enn tekist að láta reyna á hvort grundvöllur er fyrir nýjum kjarasamningi og hvað hann gæti innihaldið.

Íslensk stéttarfélög þurfa að draga lærdóm af reynslu síðastu vikna og haga undirbúningi að endurnýjun kjarasamninga mun fyrr en gert hefur verið fram til þessa. Tryggja þarf að rými skapist til að láta reyna á samningsviljann áður en gildandi kjarasamningur rennur út.

Stéttarfélögin verða að hefja undirbúninginn mun fyrr ekki síst með tilliti til þess að það tekur mikinn tíma að samræma áherslur og móta sameiginlega sýn.

Nú er væntanlega að hefjast samningatörn þar sem látið verður á það reyna hvort hægt verður að ganga frá kjarasamningi sem tryggir kaupmáttaraukningu á meðan samningsaðilar vinna að langtíma samningi.

Það er gríðarlega mikilvægt að nú verði unnið hratt og vel og látið reyna á samningsvilja atvinnurekenda og það liggi fyrir innan ekki langs tíma hvort samningar takist. Það er ekki gott að hleypa samningsgerðinni fram yfir áramótin því þá er aukin hætta á að það fari að fjara undan samstöðunni og vonbrigðin í samfélaginu snúist upp í andstöðu.

Þjóðin kallar eftir forystu stéttarfélaganna til að leiða þjóðina inn á nýjar brautir þar sem velsæld fer vaxandi, stöðugleiki er viðvarandi og aukin sátt ríkir í okkar litla samfélagi. Sagan sýnir að stjórnmálamenn hafa hvorki getu né vilja til að leiða þjóðina í gegnum nauðsynlegar umbætur m.a. vegna ólíkra sjónarmiða og skorti á vilja og getu til að vinna saman.