Áskorun til ríkisins
Samninganefnd Samiðnar lýsir yfir vonbrigðum með afstöðu fjármálaráðherra við óskum stéttarfélaganna, um að ríkið dragi til baka fyrirhugaðar verðbreytingar sem fram koma í fjárlagafrumavarpinu en þar er gert ráð fyrir 3% verðlagshækkunum. Það má öllum vera ljóst að ef ríkisstjórnin ætlar að ganga fram með verðlagshækkanir sem óhjákvæmilega valda aukinni verðbólgu, munu fleiri fylgja í kjölfarið og hækka verð á vöru og þjónustu. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að láta fyrirhugaðar verðbreytingar koma til framkvæmda er yfirlýsing um að hún hafi ekki trú á einu brýnasta baráttumáli íslenskra stéttarfélaga, að ná verðbólgu niður og skapa efnahagslegan stöðugleika. Samninganefndin skorar á ríkisstjórn Íslands að fylgja í kjölfar Reykjavíkurborgar og draga til baka verðbreytingar sem fyrirhugaðar eru í fjárlagafrumvarpinu og lýsa nú þegar yfir að engar breytingar verði á þjónustugjöldum til hækkunar hjá ríkinu á næsta ári.
Áskorun til sveitarfélaganna
Samninganefnd Samiðnar fagnar ákvörðun Reykjavíkurborgar, eftir viðræður við stéttarfélögin í Reykjavík, að hætta við gjaldskrárhækkanir og stíga þannig með ábyrgum hætti inn í kjarasamningsgerðina.
Samninganefndin skorar á önnur sveitarfélög landsins að gera það sama og mynda samstöðu með stéttarfélögum um land allt í baráttunni gegn verðbólgu og efnahagslegum óstöðugleika. Íslensk sveitarfélög eru mjög skuldsett og stór hluti skuldanna verðtryggður og því hefur verðbólga mikil áhrif á afkomu þeirra. Það má öllum vera ljóst að það er mikið hagsmunamál sveitarfélaganna að ná niður verðbólgu en það mun reynast mjög erfitt ætli þau að spila frítt í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar.
Samiðn beinir því til aðildarfélaga sinna að taka upp viðræður við sveitastjórnir í sínum sveitarfélögum og tryggja aðkomu þeirra að einu mikilvægasta hagsmunamáli íslenskra heimila með því að mynda órofa keðju um allt land gegn þessum forna fjanda verbólgunni .