Vinna við kjarasamningsgerð er ekki ólíkt því að veiða lax, maður verður sér úti um leyfi til að mega veiða og reynir að undirbúa sig sem best, fer yfir búnaðinn, kynnir sér aðstæður og les sér til um reynslu annarra og spáir í framtíðina í gegnum veðurfræðingana. Þegar á hólminn er komið er það undir laxinum hvort hann vill taka það sem honum er boðið. Sýni hann áhuga og taki er ekki þar með sagt að búið sé að landa honum. Framundan er löng og tvísýn barátta þar sem báðir aðilar beita öllu til að ná sínu markmiði, laxinn að sleppa en veiðimaðurinn að landa honum.
Þegar stéttarfélögin eru að undirbúa sig undir endurnýjun kjarasamninga reyna þau eftir bestu getu að greina þarfir félagsmanna og möguleika samfélagsins til að mæta þeim. Þau leggja fram sínar tillögur í von um að atvinnurekendur og stjórnvöld séu tilbúin að bíta á öngulinn svo hægt sé að draga alla að landi.
Stundum tekst það með víðtækri sátt og góðum árangri en á öðrum tíma koma stéttarfélögin með öngulinn í rassinum og slitna línu.
Samiðn byrjaði strax í september að kasta út færinu þegar kynntar voru niðurstöður kjaramálaráðstefnu sambandsins. Aflinn hefur verið rýr fram til þessa og enginn lax er komin á land en þrátt fyrir það eru málin farin að skýrast og kannski fer að styttast í að við förum að sjá boga á stönginni.
Nú liggja fyrir áherslur stærstu sambanda og félaga innan ASÍ og fyrir liggur hvernig SA vill nálgast samningagerðina. Vissulega er verulegur munur á hvernig einstaka sambönd og félög vilja nálgast sín markmið sem eru þrátt fyrir allt sameiginleg þ.e að bæta lífskjör almennings. Hins vegar er það staðreynd að mikill samhljómur er meðal mikils meirihluta félagsmanna stéttarfélaga innan ASÍ.
Stéttarfélögin hafa fyrir löngu kastað færinu til ríkisstjórnarinnar og óskað eftir aðkomu hennar að samningsgerðinni, ekki endilega að koma með fullan poka af jólagjöfum heldur að hún komi að samningsgerðinni sem mikilvægur steinn í þeim grunni sem við viljum byggja framtíðina á.
Eftir langa bið á árbakkanum urðu stéttarfélögin vör í gær, stöngin svignaði örlítið og það kviknaði von um að það væri eitthvað komið á færið.
Boðað var til fundar kl. 15 í gær með formönnum landssambanda og stærstu stéttarfélaganna með fulltrúum ríkisstjórnarinnar. Á fundinum kynntu fulltrúar stéttarfélaganna sína sýn hvað varðar kjarasamningsgerðina og lögðu fram minnisblöð um þau atriði sem þau telja að verði að ræða og hvernig þau sjá aðkomu ríkisstjórnarinnar að samningsgerðinni, formaður Samiðnar Hilmar Harðarson, sat fundinn fyrir hönd sambandsins enda vanur veiðimaður.
Hvort það sé líklegt að okkur takist að landa laxi eða ekki á næstu dögum ræðst mikið af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar en það skiptir miklu máli að ríkisstjórnin skuli hafa fallist á að taka upp viðræður við stéttarfélögin og gert er ráð fyrir viðbrögðum fyrir lok næstu viku.
Einnig hafa stéttarfélögin átt samtöl við sveitarfélög og lagt áherslu á samstarf og samvinnu og þau horfi til þeirra markmiða sem samningsgerðin þarf nauðsynlega að byggja á þ.e. stöðugleika og vaxandi kaupmáttar.
Þegar laxinn er stór og aðstæður erfiðar ræðst árangurinn oft á því hver hefur meiri þolinmæði, flýti veiðimaðurinn sér um of getur illa farið.
Samiðn hefur sett fram skýra sýn hvert skuli stefna, við viljum nota tímann næstu mánuði til að leggja sameiginlegan grunn sem við getum byggt framtíðina á. Fáir þekkja það betur en félagsmenn Samiðnar hversu mikilvægt er að vanda undirstöðuna þegar byggja skal hús.
Ef grunnurinn fer að gefa sig springur húsið, það myndast sprungur sem vatnið smýgur inn og smám saman grotnar húsið niður og það verður ónothæft til búsetu.
Það eru margar sprungur í grunninum sem íslenskt efnahagslíf byggir á og veldur því að lífskjör hafa farið versnandi síðustu ár og valdið því að Íslendingar hafa dregist aftur úr í samanburði við önnur Norðurlönd.
Samiðn hefur þá trú að svona þurfi þetta ekki að vera og með samstilltu átaki stéttarfélaganna, atvinnurekenda, ríkisstjórnar og sveitarfélaga getum við lagt nýjan grunn þar sem framtíðin getur staðið styrkum fótum um langa framtíð.
Forsendan er að við höfum sameiginlega framtíðarsýn og við getum komið okkur saman um skilgreind markmið sem við ætlum að stefna að.
Að tala saman er fyrsta skrefið, við skulum ganga inn í helgina með þá von í brjósti að raunverulegt skref hafi verið stigið í gær með fundi ríkisstjórnarinnar og stéttarfélaganna.