Á formannafundi Alþýðusambands Íslands sem haldinn var í dag fór Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ ítarlega yfir stöðu kjaraviðræðna og fór hörðum orðum um niðurskurðaráform ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum.
Sagði hann þá stefnu sem birtist í fjárlagafrumvarpinu, það er lækkun skatta á hálaunafólk og niðurskurð í velferðarkerfinu, ganga í megin atriðum gegn þeirri sýn sem Alþýðusambandið hafi. Miðað við þau niðurskurðaráform í velferðarkerfinu sem birtast í tillögum hagræðingarnefndar væri það sem sæist í fjárlagafrumvarpinu vegna ársins 2014 aðeins toppurinn á ísjakanum og búast megi við að mun harðar verði gengið fram á næsta ári.
Hann kvartaði yfir að stjórnvöld væru mjög treg til samstarfs við aðila vinnumarkaðarins en það væri algjör forsenda fyrir því að hægt sé að hefja vinnu við gerð langtímasamnings.
Til að hægt sé að gera langtímasamning sem hafi stöðugleika, litla verðbólgu og vaxandi kaupmátt að markmiði, verði allir að koma að borðinu þ.e. ríkisvaldið, sveitarfélögin, samtök atvinnurekenda og launaþegasamtökin.
Vegna óljósrar stefnu stjórnvalda í efnahags- og peningamálum og neikvæðrar afstöðu til samstarfs við aðila vinnumarkaðarins sé rétt að stefna á stuttan kjarasamning þ.e til eins árs og gefa stjórnvöldum lengri tíma til að vinna heimavinnuna. Nauðsynlegt væri stjórnvöld skýrðu betur hvernig þau hyggjast afnema gjaldeyrishöft og hvernig staðið verði við loforð um aðgerðir í þágu skuldsetra heimila áður en gengið verði frá samningum til lengri tíma.
Gylfi lagði áherslu á samstöðu hreyfingarinnar og haldi mikilvægt að nýta sóknarfæri í einstökum atvinnugreinum fyrir alla en ekki eingöngu fyrir tiltekna hópa.
Formannafundurinn samþykkti ályktun um kjaramál þar sem m.a kemur fram að vegna mikillar óvissu um þróun efnahagsmála og ekki síður vegna þess að ekki hafi komið fram vilji hjá stjórnvöldum til samstarfs sé rétt að stefna á stuttan kjarasamning. Samningstíminn verði notaður til að skapa samstöðu um helstu hagsmunamál launafólks og um aðgerðir í efnahagsmálum sem geti orðið grunnur að langtímasamningi.