Frá árinu 2006 hafa einstakar starfsstéttir hækkað 58% en laun iðnaðarmanna í bygginga- og mannvirkjagerð um 43%. Þetta má lesa úr nýútkominni skýrslu Samstarfsnefndar um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga „Í aðdraganda kjarasamninga“ og fjallar um efnahagsumhverfi og launaþróun á tímabilinu 2006-2013 og er hugsuð sem undirstöðugang við gerð kjarasamninga. Í skýrslunni er mikið safn upplýsinga um launaþróun og hvernig kaupmáttur einstakra starfshópa hafa þróast á þessu tímabili.
Þegar á heildina er litið hefur launaþróunin verið hliðstæð hjá hinum ólíku hópum en á því eru þó undantekningar. Það sem vekur einna mesta athygli er hvað laun starfsmanna sveitarfélaga, sem taka laun samkvæmt kjarasamningum ASÍ stéttarfélaga, skera sig úr fyrir hvað þau eru miklu lægri en hjá öðrum viðsemjendum sveitarfélaga. Þannig eru meðallaun ASÍ félagsmannanna sem starfa hjá sveitarfélögum 277.000 kr. á mánuði á meðan sambærileg tala hjá BSRB er 355.000 kr. Meðallaun ASÍ félagsmanna hjá ríkinu eru 345.000 kr. en á almennum markaði 425.000 kr.
Annað sem vekur athygli í þessum samanburði á launabreytingum á almennum vinnumarkaði eftir atvinnugreinum og starfsstéttum er launaþróun iðnaðarmanna og sérstaklega í byggingariðnaði. Almennt hafa laun verið að hækka á bilinu 50 -58% frá árinu 2006 til 2013. Iðnaðarmenn hafa hækkað mun minna eða að meðaltali 47,4%. Í þessum samanburði skera iðnaðarmenn í bygginga-og mannvirkjagerð sig algjörlega úr í öllum samanburði en þeirra laun hafa ekki hækkað nema um 43%. Í þessum tölum birtist afleiðingin þess mikla samdráttar sem varð í kjölfar hrunsins en engin atvinnugrein fór eins illa út úr því og bygginga- og mannvirkjagreinin sem bæði birtist í miklu atvinnuleysi og lægri launum. Það er nokkuð ljóst ef vilji til að nýta þessa skýrslu til leiðréttinga á einstökum hópum, þá hlýtur m.a. að verða horft til iðnaðarmanna og þá sérstaklega í bygginga-og mannvirkjagerð.
Í síðustu kjarasamningum hafa samningsaðilar verið sammála um að leggja áherslu á hækkun lægstu launa og á það hafa iðnaðarmenn fallist og samið um minni launabreytingar til að auka svigrúmið fyrir aðra starfshópa. Þeir hafa gert þetta í þeirri vissu að þegar birta tæki myndi verða sátt um að þeirra mál fengju forgang. Nú þegar þessar upplýsingar liggja á borðinu og það er tekið að birta af degi í íslensku efnahagslífi hljóta iðnaðarmenn að banka á dyrnar og spyrja hvort okkar tími sé ekki að koma.
Stéttarfélög iðnaðarmanna gera sér grein fyrir mikilvægi þess að það náist góð samtaða um forsendur í kjara- og efnahagsmálum til lengri tíma og okkur takist að skapa stöðugleika þar sem framsækið og öflugt atvinnulíf getur sprungið út og greitt starfmönnum góð laun. Við teljum hins vegar mjög mikilvægt að það sé skapað gott svigrúm fyrir stéttarfélögin til að fjalla um sín sérmál í aðdraganda kjarasamninga til lengri tíma.