Engin verðbólga…!

Engin verðbólga mældist í október og eru það ný tíðindi fyrir okkur Íslendinga að engin verðbólga mælist á milli mánaða en það gerðist nú í október mælingu Hagstofu Íslands. Verðbólgan mælist 3,6% sé miðað við síðastliðna 12 mánuði sem er töluvert undir meðaltali og ef horft er aftur til ársins 2006 hefur verðbólgan verið að jafnaði 6,9%. Undanfarna 3 mánuði hefur vísitala neysluverð hækkað um 0,7% sem jafngildir 2,7% verðbólgu en verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5%.

Þessi niðurstaða kemur flestum greiningaraðilum á óvart en flestir spáðu hækkun í október og er þróunin mun hagfelldari en gert var ráð fyrir. Verði þróunin í þessa veru þá tvo mánuði sem eftir eru af árinu stefnir í að ársverbólgan verði minni en Seðlabankinn gerir ráð fyrir.
Þetta eru gleðitíðindi fyrir alla og ekki síst þá sem eru með verðtryggð eða óverðtryggð lán því til lengri tíma taka óverðtryggðu lánin mið af verðbólgu.

Þetta eru ekki síður gleðitíðindi fyrir stéttarfélögin sem eru að hefja viðræður um endurnýjun kjarasamninga en í þeim viðræðum er lögð áhersla á að hefta verðbólguna og hér á landi verði stöðugt verðlag í anda Norðurlandanna.

Nú er mikilvægt að allir vandi sig og ekki síst ríkisstjórn og sveitarstjórnir og hleypi ekki gjaldskrár hækkunum út í verðlagið um næstu áramót.