Verðbólgan er draugur sem ásækir okkur öll

Verðbólguhugsunin er gróin í íslenska menningu og þegar við reynum að spá í framtíðina gerum við ráð fyrir að verðbólgan muni fylgja okkur um ókomna framtíð.  Þetta kemur skýrt fram í könnun Capacent meðal stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins og greint er frá í Morgunkorni Íslandsbanka en könnunin var gerð fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann.  Samkvæmt könnuninni eru stjórnendur svartsýnni nú en í maí s.l og gera nú ráð fyrir að verðbólgan verði 3,7% en spáðu í maí 3,2%.  Þegar þeir horfa til tveggja ára er sama upp á teningnum spáin hefur hækkað í 4,6% en er í dag 3,9%.  Það sem veldur þessari hækkun er fyrst og fremst vantrú á íslensku krónuna og spá þeir að gengið muni lækka og áhrif þess valdi hækkandi verðbólgu.

Þetta eru sláandi niðurstöður og gefa tilefni til að stoppa við og spyrja sig hvort þessi spá þurfi að rætast.

Svarið er nei.

Stéttarfélögin og atvinnurekendur eru þessa dagana að setjast yfir kjarasamningsgerðina en kjarasamningar renna út eftir rúman mánuð.  Megin áhersla Samiðnar er minnkandi verðbólga og vaxandi kaupmáttur launa.  Verði þessi spá að veruleika er erfitt að sjá hvernig okkur tekst að ná fram þessum markmiðum.  Samtök atvinnulífsins hafa tekið undir sjónarmið Samiðnar og leggja áherslu á stöðugleika og vaxandi hagvöxt sem leiði til bættra lífskjara.

Það er mikið átak og langvinnt að breyta menningu þjóðar en ekki útilokað ef markmiðið er skýrt og allir gangi í takt og ekki síst ef allir hafa hag af því.  Íslendingar eiga engan annan kost en að vinna sig út úr verðbólgumenningunni og tryggja hér á landi efnahagsskilyrði og lífskjör sem eru sambærileg við það sem við berum okkur saman við.

Við hjá Samiðn köllum eftir samherjum sem vilja koma með okkur í slaginn gegn verðbólguhugsunar-hættinum.  Það er engin leið að ná árangri nema margir leggist á árarnar og það sem er svo mikilvægt að byrja á er að hætta að ganga út frá verðbólgu sem gefnum hlut og hleypa öllum verðhækkunum út í verðlagið í skjóli hugsanlegrar verðbólgu.

Til þess að stoppa verðbólgu verður að nást sátt um að fyrirtæki, ríkið og sveitarfélög hleypi verðhækkunum ekki út í verðlagið.  Verði það hins vegar niðurstaðan að þessir aðilar setji allar hækkanir út í verðlagið og fyrirtækin geri það sama við launahækkanir verðum við föst í sama feninu um ókomna framtíð.

Við eigum að nýta okkur spá stjórnenda stórfyrirtækjanna til að bregðast við og gera næstu áramót að upphafi nýrra tíma þar sem allir taka ábyrgð á því sem að þeim snýr.  Stoppum víxlverkun launa og verðlags með sameiginlegu átaki.  Við höfum reynsluna frá byrjun tíunda ártugarins og vitum að þetta er hægt og þegar frá líður hafa allir hag af því.  Þegar upp er staðið er verðbólgan draugur sem ásækir okkur öll og vinnur gegn sameiginlegum markmiðum okkar allra við að byggja upp samfélag þar sem lífskjör allra fara batnandi.