Samantekt frá kjaramálaráðstefnu

Kjaramálaráðstefna Samiðnar var haldin á Hótel Sögu 20.september s.l. og má hér að neðan sjá afrakstur þeirrar umræðu sem fram fór á ráðstefnunni auk þess sem sjá má stutt myndband frá ráðstefnunni hér.

> Er rétt að gera stuttan kjarasamning t.d. fram til vorsins 2014 sem væri aðfararsamningur að kjarasamningi til lengri tíma?

Stefna ber að stuttum kjarasamningi 6-12 mánaða sem taki við af núgildandi kjarasamningi 1. desember 2013.  Lengdin ræðst af innihaldi og hvernig tekst að ná samkomulagi um áframhaldandi vinnu við gerð langtímasamnings.

Mikilvægt að skapa víðtæka samstöðu um stuttan kjarasamning og að hann sé aðfararsamningur að kjarasamningi til lengri tíma.

Að samkomulag takist um vinnulag við gerð langtímasamnings og að markmið hans verði að skapa efnahagslegan stöðugleika, aukinn hagvöxt og vaxandi kaupmátt launa.

 

> Hvert á að vera megin inntak krafna Samiðnar í stuttum kjarasamningi?

Að kröfurnar taki mið af því hvort samið verður til 6 mánaða eða 12.  Í 6 mánaða samningi verði horft til þess að tryggja kaupmátt en ef samningurinn yrði til 12 mánaða verði að koma til kaupmáttaraukning.  Nefndar voru launahækkanir til að tryggja kaupmátt launa og í því sambandi bent á að spáð er 4-5% verðbólgu á næstu misserum.  Einnig rætt um að semja um kaupmáttaraukningu og í því sambandi nefnt 1% á samningstímanum ef samningstíminn yrði t.d. 12 mánuðir í blandaðri leið launabreytinga og skattalækkana.

Til að ná fram kaupmáttaraukningu á að skoða hækkun frítekjumarka og almennar skattabreytingar og tengja kaupmáttaraukningu við hagvöxt og tryggja að launamenn fái tiltekið hlutfall í auknum hagvexti.

Það á að vera mikil áhersla á viðspyrnu við verðbólgu og það séu skýr verðbólgumarkmið sem allir verða að undirgangast.

Skoðað hvort hægt sé að draga úr áhrifum verðtryggingar með endurskoðun á forsendum hennar á meðan unnið er að endurskoða verðtryggingarinnar, m.a verði skipting verðbótaþáttar á milli lántakanda og lánveitanda skoðaður.

Ekki verði hróflað við áunnum réttindum í kjarasamningum.  Þeim málum verði tryggður framgangur sem ekki eru komin til framkvæmda en samið var um í síðustu kjarasamningum s.s yfirlýsingin um jöfnun lífeyrisréttinda.

Hafin verði vinna við raunstyttingu vinnuvikunnar. Tryggt verði að laun haldist óbreytt þrátt fyrir styttingu vinnuvikunnar.

Mikilvægt að tryggja að brugðist verði við sívaxandi húsnæðisvanda almennings.

 

> Ef það dregst á langinn að ljúka samningsgerðinni, til hvað aðgerða eiga stéttarfélögin að grípa til að knýja á um gerð nýs kjarasamnings?

Mikilvægt að samhliða vinnu við mótun krafna verði hugað að því hvernig kröfum verði fylgt eftir ef samningar nást ekki innan eðlilegra tímamarka.

Flestir á því að beita stuttum verkföllum dag og dag með víðtækri samstöðu en beita minni hópum þess á milli með fjárhagslegum stuðningi allra.