Í setningarræðu sinni á kjaramálaráðstefnu Samiðnar sem nú stendur yfir á Hótel Sögu varpaði Hilmar Harðarson formaður Samiðnar fram þeirri spurningu hvort stuttur kjarasamningur fram til vors eða fram á haust, sem hefði það að markmiði að tryggja kaupmátt, væri vænlegri en samningur til lengri tíma. Á meðan efnahagsstefna stjórnvalda væri ekki að fullu komin fram gætu aðilar vinnumarkaðarins í samstarfi við stjórnvöld nýtt samningstímann til undirbúnings kjarasamningi til lengri tíma sem byggði á efnahagslegum vexti og stöðugleika og þar með vaxandi kaupmætti. Almenn samstaða innan ASÍ væri algjört skilyrði fyrir slíkum samningi. Fundurinn tók undir þessi sjónarmið formannsins og fól samninganefnd Samiðnar að vinna að samstöðu um að gera stuttan kjarasamning.