Launaþróun innan íslensku bankanna er hvorki í takt við almenna launaþróun í landinu né verðmætaaukningu í íslensku atvinnulífi. Í aðdraganda endurnýjunar kjarasamninga er ekki óeðlilegt að horft sé til launaþróunar hjá einstökum starfsgreinum eða starfshópum. Í hruninu 2008 voru íslensku bankarnir stórir gerendur og bæði einstaklingar og fyrirtæki töpuðu miklum fjármunum í viðskiptum við þá. Til að bjarga bönkunum varð íslenska ríkið að hlaupa undir bakka og ganga í ábyrgðir eða yfirtaka reksturinn til að bjarga því sem bjargað varð.
Þegar árin fyrir hrun eru skoðuð má sjá að íslensku bankarnir störfuðu meira í anda fjárhættuspilara en vandaðrar bankastarfsemi. Fullyrða má að gríðarlegir fjármunir hafi tapast vegna skorts á fagmennsku í rekstri fjármálastofnana sem allt samfélagið líður fyrir og mun líða fyrir næstu árin. Fyrir hrun voru launakjör starfsmanna innan bankanna algjörlega úr takt við almenn launakjör í landinu. Með bónusum og kaupréttarsamningum gátu einstakir starfsmenn aukið laun sín um tugi milljóna og stundum með sýndarviðskiptum. Eftir reynsluna af hruni bankanna er ekki langsótt að draga þá ályktun að vænta megi þess að í framtíðinni verði lögð áhersla á aukið siðgæði, gegnsæi og ekki síst að tryggt sé að bankarnir starfi í takt við almenning og atvinnulífið í landinu.
Í Viðskiptablaðinu 5. september s.l. er launaþróun á almennum vinnumarkaði borin saman við þróunina í íslensku bönkunum og tímabilið frá 2010 skoðað. Ef tímabilið frá fyrri árshelmingi 2010 til júní 2013 er notað sem grunnur fyrir launavísutölu bankanna þriggja, hafa laun að meðaltali hækkað rúmlega 30% en til samanburðar hefur almenn launavísitala hækkað um 7%. Launaþróunin innan bankanna er því áhugaverð fyrir stéttarfélögin sem eru þessa dagana að undirbúa endurnýjun kjarasamninga. Það getur tæplega verið ásættanlegt að almenningur og fyrirtæki sem eru mergsogin í gegnum háa vexti bankanna sætti sig við að á sama tíma sé launaþróunin innan bankanna ekki í neinu samhengi við launaþróunina í landinu eða verðmætasköpum atvinnulífsins.