Í viðtölum við formenn Samiðnar, RSÍ og VM í Morgunblaðinu 12. ágúst s.l kom skýrt fram að lágmarkskrafan í komandi kjarasamningum verður á hækkun launa umfram verðbólgu. Í spá Seðlabankans er gert ráð fyrir 4% verðbólgu næstu árin og viðskiptabankarnir spá heldur meiri verðbólgu eða 3,9 til 4,7%.
Formaður Samiðnar Hilmar Harðarson leggur áherslu á að næstu kjarasamningar skili auknum kaupmætti til launafólks og undir þetta taka formenn RSÍ og VM. Ef tekið er mið af þessum yfirlýsingum formannanna og horft til verðbólguspár bankanna er ljóst að sækja þarf minnst 5-6% launahækkanir næstu árin.
Það kemur einnig skýrt fram hjá formanni Samiðnar að krafan er að iðnaðarmenn beri ekki skertan hlut frá borði og launahækkanir til þeirra verði ekki skertar eins og í undangegnum kjarasamningum. Það kemur skýrt fram hjá formönnunum að þeir meta stöðuna þannig að það sé mikil efnahagsleg óvissa og spurning hvaða áhrif það hefur á samningstímann. Ekki er ólíklegt að sú óvissa og vaxandi verðbólga muni draga verulega úr áhuga stéttarfélaganna að binda sig til lengri tíma