Einnig kom fram að launagreiðendur hafa ekki áhuga á aðkomu að vinnu sem stuðlað gæti að stöðugleika í efnahagslífinu að svo komnu máli. Þeir bera fyrir sig að það sé ekki hægt að eiga samstarf við núverandi ríkisstjórn og án hennar aðkomu séu ekki forsendur fyrir einhvers konar stöðuleikasamningi sem bindur fyrirtækin fram í tímann. Forsetinn lýsti miklum vonbrigðum með þessa afstöðu forystu SA því verðbólga og óstöðuleiki í gengismálum er versti óvinur íslenskra launamanna. Ef enginn árangur næst í að ná verðbólgu niður og tryggja stöðugt gengi íslensku krónunnar skapast engar forsendur fyrir sambærilegri aukningu kaupmáttar og þekkist í nágrannalöndunum.
Forsetinn taldi mikilvægt að samböndin og einstök stéttarfélög nýttu tímann vel til samráðs við félagsmenn sína og komi vel nestuð til endanlegra ávörðunartöku þann 18. janúar n.k. en þá verður haldinn þriðji formannafundur ASÍ. Sá fundur hefur það hlutverk að taka endanlega afstöðu til uppsagnar kjarasamninga en endanleg niðurstaða þarf að liggja fyrir 21. janúar. Forsetinn benti enn fremur á í ræðu sinni að miðað við verðbólguspá og umsamdar launahækkanir muni kaupmáttur launa á yfirstandandi ári lækka um 1%. Hann sagði að í megin atriðum væri um tvær leiðir að ræða. Láta samninginn standa og hefja undirbúning að endurnýjun kjarasamninga strax með það að markmiði að nýr samningur tæki við þegar núgildandi samningur rennur út. Hin leiðin væri að segja samningum upp með það að markmiði að knýja á um nýjan kjarasamning sem tryggði meiri hækkanir en eru í núgildandi kjarasamningi. Verkefnið næstu daga væri að taka afstöðu til þess hvora leiðina stéttarfélögin vilja fara.
Í umræðum á fundinum kom fram að ef það verður niðurstaðan að SA hafni öllum lagfæringum á núgildandi kjarasamningum þá séu forsenduákvæði kjarasamninga marklaus og langtíma kjarasamningar þar með ekki inn í myndinni í náinni framtíð.
Fundurinn samþykkti að fela samninganefndinni að halda áfram viðræðum við SA og freista þessa að fá viðbót inn í núgildandi kjarasamninga. Einnig var lögð áhersla á að nota vel tímann í samtöl við félagsmenn fram til næsta formannafundar sem verður haldinn 18. janúar.