Áhrif fjármálakreppunnar á eignir lífeyrissjóðanna sjást vel þegar horft er yfir tímabilið 2007 til 2011 en einnig viðsnúningurinn. Það sem vekur helst athygli er að á Íslandi og Hollandi er vöxturinn stöðugt upp á við og eru þessi tvö lönd í sérflokki hvað varðar aukningu eigna.
Sé horft til raunávöxtunar árið 2011 er Ísland í fjórða sæti talið ofan frá með 2,3% raunávöxtun en meðaltalið innan OECD er neikvætt um 1,7%. Þegar heildarlífeyrissparnaður er borinn saman er hann næst mestur á Íslandi en aðeins Danmörk er með meiri lífeyrissparnað.
Áhrif fjármálakreppunnar sjást vel þegar eignarsöfn lífeyrissjóða eru skoðuð fyrir og eftir kreppu. Hlutfall hlutabréfa hefur minnkað og er í engu landi hærra en 50% af eignum sjóðanna og er Ísland nálægt miðgildi eða um 20%. Athygli vekur hátt hlutfall skuldabréfa með ríkisábyrgð í eignarsafni íslensku lífeyrissjóðanna. Sé litið til erlendra eigna í eignarsöfnum íslenskra lífeyrissjóða eru þær umtalsvert minni en flestra annarra lífeyrissjóða innan OECD eða aðeins 25%.
Þegar litið er til skiptingu og umfangs lífeyrisgreiðslna sker Ísland sig úr. Heildar lífeyrisgreiðslur á Íslandi þ.e frá lífeyrissjóðum og almanntryggingum, sem hlutfall af landsframleiðslu er nálægt miðgildi innan OECD. Sérstaða Ísland er hvað stór hluti lífeyris kemur frá lífeyrissjóðum en hlutur almannatrygginga er lítill. Í flestum löndum er þetta á annan veg farið en þar bera almannatryggingar stærstan hluta lífeyrisgreiðslna. Hlutfall heildarlífeyrisgreiðslna af landsframleiðslu árið 2011 er um 8% á Íslandi meðan meðaltalið innan OECD er á milli 9 og 10% og land eins og Danmörk er með tæplega 11%. Það er skiptingin milli lífeyrissjóða og almannatrygginga sem er einstök á Íslandi en almannatryggingakerfið er aðeins að leggja til 2% af landframleiðslu til lífeyrissgreiðslna á með t.d Danmörk er að leggja til tæp 6% og meðaltalið innan OECD er um 7%.
Mörg landa innan OECD vinna hörðum höndum að því að efla sjálfstæða lífeyrissjóði og hverfa frá gegnumstreymiskerfum. Framtíðarskuldbindingar slíkra kerfa eru í flestum tilfellum gríðarlega háar og oft á tíðum óviðráðanlegar. Yfirleitt eru allir nýir sjóðir sem stofnaðir eru með skilgreint iðgjaldaframlag og án ábyrgðar. Víða er verið að breyta sjóðum úr skilgreindum réttindum með ábyrgð í sjóði með skilgreind iðgjöld og án ábyrgðar eða með takmarkaða ábyrgð. Það er almennt viðurkennt að sjóðir með ábyrgð (tryggð réttindi) séu ekki lengur raunhæfur valkostur til framtíðar.
Tekið saman og byggt á grein Björn Z. Ásgrímssonar sérfræðings hjá FME. Hægt er að nálgast greinina í heild sinni inn á vef FME en hún birtist í vefriti stofnunnarinnar.