Þungur tónn á formannafundi ASÍ

Forseti ASÍ Gylfi Arnbjörnsson sagði á fundinum að þeir þættir sem snúa að atvinnurekendum hafi staðist að mestu leyti en vanhöldin séu hjá ríkisstjórninni. Hann taldi að ekki væri hægt að gera ráð fyrir að ríkisstjórnin myndi breyta um kúrs og standa við sínar skuldbindinar, það væri fullreynt.
Niðurstaða forsetans var að þríhliða samningsformið væri ekki til staðar í dag þar sem það hefði enga þýðingu að ræða við ríkisstjórn sem væri í minnihluta og skort allan metnað til að standa við gefin fyrirheit.
Gylfi sagði að raunveruleikinn væri sá að samningarnir hafi brostið strax í upphafi samningstímans þegar ekki var staðið við loforð um hækkun atvinnuleysisbóta og lífeyris frá almannatryggingum. Ljóst er að samningsforsendur verða brostnar í janúar og hlutverk stéttarfélaganna og sambandanna er að nýta tímann fram í byrjun janúar til að meta stöðuna og þróa tillögur um viðbrögð.
Undir þetta tóku aðrir fundarmenn og var lögð áhersla á að nýta það svigrúm sem til staðar er til að styrkja kaupmáttinn ekki síst hjá þeim sem minnsta hækkanir hafa fengið og eru á lágmarkstöxtunum.
Næsti formannafundur ASÍ verður í byrjun janúar en gert er ráð fyrir að halda tvo slíka í janúar en samninganefnd ASÍ og SA á sinn fyrsta fund í næstu viku.