Aukning landsframleiðslu og hækkun eigna lífeyrissjóðanna

Greiningardeild Íslandsbanka rýnir í nýbirtar tölur Hagstofunnar um fjármál hins opinbera á síðasta ári og sýna þær aukningu í vergri landsframleiðsla (VLF) um 3,1% að raungildi á árinu 2011. Þessi vöxtur kemur í kjölfar mikils samdráttar tvö árin þar á undan, en árið 2009 dróst VLF saman um 6,8% milli ára, og árið 2010 dróst hún saman um 4,0%.
Þrátt fyrir að þróun VLF í heild sinni sé í samræmi við spár, þá eru einstaka liðir VLF að þróast með nokkuð öðrum hætti en spárnar gerðu ráð fyrir.
Hagvöxtur síðasta árs skýrist að mestu af vexti einkaneyslunnar sem jókst um 4,0% eftir þriggja ára samdráttartímabil. Í riti Hagstofunnar kemur fram að einkaneyslan á síðastliðnu ári sé nánast sú sama að raungildi og á árinu 2004. Þrátt fyrir þennan vöxt einkaneyslunnar er hlutfall hennar af VLF enn sögulega lágt eða 52% í fyrra, en fram til ársins 2007 var það á bilinu 55-60%.
Þrátt fyrir að vöxturinn á fjórða ársfjórðungi hafi verið minni en hann að jafnaði á árinu, þá er ekki annað hægt að segja en að hann hafi verið myndarlegur miðað við þróunina í öðrum löndum á sama tíma. Árstíðarleiðréttur hagvöxtur á fjórða ársfjórðungi var 1,9% hér á landi, á sama tíma var 0,9% vöxtur í ESB ríkjunum, 0,7% í evruríkjunum, 1,6% í Bandaríkjunum og svo samdráttur upp á 1,0% í Japan. Af Norðlöndunum má nefna að það var 1,8% hagvöxtur á þessum tíma í Noregi, 1,4% í Finnlandi og 0,7% í Danmörk (sjá nánar).

Greiningardeildin rýnir einnig í stöðu lífeyrissjóðanna en hrein eign lífeyrissjóðanna hækkaði um 36,4  ma.kr. í janúar síðastliðnum eða um 1,75%. Þetta er heldur meiri aukning á milli mánaða en verið hefur upp á síðkastið. Þannig hafa eignir lífeyrissjóðanna hækkað að meðaltali um 15,6 ma kr. í mánuði hverjum undanfarið ár. Hrein eign lífeyrissjóðanna nam í lok janúar sl. 2.133 mö.kr. Hrein eign lífeyrissjóðanna jókst um 201 ma.kr. undanfarna 12 mánuði  sem samsvarar aukningu um 10,4%. Að teknu tilliti til verðbólgu var raunaukning eigna sjóðanna mun minni, eða 3,7%. Þetta kemur fram í tölum Seðlabankans sem birtar voru í gær. Raunávöxtun eigna þeirra hefur þó verið öllu lakari enda nema iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga mun hærri fjárhæð en greiðslur til lífeyrisþega og úttektir séreignasparnaðar (sjá nánar).