Ríkisstjórnin sendir reikninginn á börn framtíðarinnar með samtímasköttun á lífeyrissjóðina

Miðstjórn Samiðnar samþykkti á fundi sínum í gær ályktun þar sem fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar í skattlagningu á eignir lífeyrissjóðanna er harðlega mótmælt þar sem hún stríðir gegn sátt kynslóðanna um að fólk á vinnumarkaði greiði í sjóði til að mæta kostnaði þegar það hverfur af vinnumarkaði en lífeyrir þess sé ekki eingöngu fjármagnaður af samtímasköttun þeirra yngri eins og nú virðast vera áform um.

„Miðstjórn Samiðnar mótmælir harðlega fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar um skattlagningu á eignir lífeyrissjóðanna og upptöku fjársýsluskatts á lífeyrissjóðina.

Miðstjórn Samiðnar  krefst þess að ríkisstjórnin dragi til baka öll áform um skattlagningu á lífeyrissjóði en standi þess í stað við gefin fyrirheit um jöfnun lífeyrisréttinda í tengslum við kjarasamninga.

Á komandi árum mun aldurshlutfall þjóðarinnar breytast í þá veru að fjöldi 67 ára og eldri fer hratt vaxandi með tilheyrandi hækkun kostnaðar í félags- og heilbrigðiskerfinu. Á sama tíma mun þeim hlutfallslega fækka sem verða  á vinnumarkaði.  Mikilvægt er að lífeyrir sé ekki skattlagður við inngreiðslur heldur við útgreiðslu en þannig er viðhaldið því grundvallarmarkmiði að lífeyrisþegar standi sjálfir undir  stærstum  hluta þess  kostnaðar  sem tilfellur  í samfélaginu  þeirra vegna.

Sjóðssöfnun til greiðslu lífeyris  er hluti af sátt kynslóðanna sem byggir á því að fólk á vinnumarkaði greiði  í sjóði til að mæta kostnaði þegar það hverfur af vinnumarkaði en lífeyrir þess sé ekki eingöngu fjármagnaður  af samtímasköttun þeirra yngri. 

Miðstjórnin vill minna á fyrirheit ríkisstjórnarinnar um jöfnun lífeyrisréttinda, en fyrirhuguð skattlagning snertir eingöngu almennu lífeyrissjóðina þar sem ríkið  mun verða að bæta opinberu sjóðunum upp skattlagninguna með auknum inngreiðslum sem teknar verða af skattfé almennings.

Miðstjórn áréttar jafnframt fyrri ályktun um skattlagningu séreignalífeyrissparnaðar þar sem skatturinn er gróft inngrip í frjálsa kjarasamninga.“