Ákvæði um gerviverktöku og fastráðningarsamband í kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins
•Fastráðningarsamband er meginreglan á íslenskum vinnumarkaði
Starfsmenn í skilningi kjarasamnings þessa eru þeir sem ráðnir eru til að gegna störfum undir stjórn atvinnurekenda á umsömdum vinnutíma við úrlausn þeirra verkefna, sem atvinnurekandi mælir fyrir um og á hans ábyrgð.
•Laun og önnur réttindi
Starfsmenn skulu fá greidd laun en ekki verktakagreiðslur og njóta annarra réttinda í samræmi við ákvæði kjarasamninga og laga.
•Verksamningur í stað ráðningarsamnings
Verksamningi skal ekki beitt í stað ráðningar starfsmanna nema í þeim tilvikum að um verktöku sé að ræða og fyrir liggi verksamningur samanber yfirlýsingar um verktakastarfsemi sem fylgir kjarasamningi Samiðnar .
•Eftirlit á vinnustöðum
Samtök atvinnulífsins og Samiðn eru sammála um að vinnustaðaeftirlit sem byggir á lögum nr. 42/2010 um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, taki einnig til eftirlits með gerviverktöku. Eftirlitsfulltrúi hefur heimild til að krefja alla starfsmenn í byggingastarfsemi um vinnustaðaskírteini og verksamninga ef það á við.
•Sáttanefnd
Vísa má meintum brotum á ákvæðum um gerviverktöku til sérstakrar sáttanefndar samningsaðila til umfjöllunar ef aðilar sammælast um það sbr. 2 gr. laga nr. 55/1980, áður en efnt er til málsóknar í Félagsdómi. Nefndin þarf að komast að niðurstöðu innan tveggja vikna frá því að máli er vísað til hennar.
•Helstu einkenni verksamninga
–Verktaki vinnur sjálfstætt fyrir verkkaupa samkvæmt verksamningi þeirra á milli
–Verkið skal unnið á tilteknum tíma
–Verkið skal unnið fyrir umsamið eininga- eða heildarverð
–Verktaki er ekki undir verkstjórn annarra og notar ekki verkfæri og aðstöðu atvinnurekanda nema um sé samið sérstaklega
–Verktaki er ekki skyldugur til að vinna verkið sjálfur
•Helstu einkenni vinnusamnings/ráðningarsamnings
–Samningur milli launþega og atvinnurekanda um tiltekna vinnu
–Launþegi fær föst vinnulaun á umsömdum tíma í hlutfall við lengd vinnutíma
–Launþegi hlítir verkstjórn og notar verkfæri og aðstöðu atvinnurekanda
–Gagnkvæmur uppsagnarfrestur er á milli á launamanns og atvinnurekanda
•Vinnustaðaskírteini
Launaþegar og verktakar skulu bera vinnustaðaskírteini þar sem fram kemur nafn, kennitala, og hvort um starfsmann eða verktaka er að ræða, nafn og kennitala atvinnurekandans.
Sjá www.skirteini.is