Talsvert áunnist í kjaraviðræðunum – engar viðræður enn um launaliðinn

Í þessari viku hefur tekist að koma mörgum málum áleiðis sem áhersla hefur verið á að kláruðust við samningagerðina og eru ekki mörg mál sem standa út af hvað varðar sérmálin.  Í gær fimmtudag kom fram pakki frá ríkisstjórninni sem tekur til efnahagslífsins s.s. losun gjaldeyrishafta, bótafjárhæðum almannatrygginga, breytinga á persónuafslætti, starfsskilyrða atvinnulífsins, sóknar í atvinnumálum s.s. orkumálum, mennta- og vinnumarkaðsúrræða, samræmingar lífeyrisréttinda, endurskoðunar á fyrirkomulagi atvinnuleysistrygginga, starfsendurhæfingar og húsnæðismála.  Þrátt fyrir að skjalið uppfylli ekki nema að hluta kröfur verkalýðshreyfingarinnar þá hefur samninganefnd Samiðnar fallist á að vinna skjalið áfram með öðrum iðnaðarmannafélögum.  Um helgina munu forystumenn samtakanna eiga viðræður við viðsemjendur um launalið samningsins og verður væntanlega lagt upp vinnuplan þar sem gert er ráð fyrir að síðasta lota kjarasamningsviðræðnanna sé að hefjast þ.e. ef ekkert óvænt kemur upp á.  Ljóst er þrátt fyrir þetta að það mun taka töluverðan tíma að ganga frá samningum og einnig er ljóst að sáralitlar viðræður hafa átt sér stað við ríki og sveitarfélög um kjarasamninga.