Vikan 24.-28.janúar hefur verið viðburðarrík og ýmislegt að gerast í kjaraviðræðunum. Á sameiginlegu borði ASÍ var lögð áhersla á sameiginlega launastefnu þrátt fyrir að ekki hafi tekist að mynda afgerandi samstöðu um þá nálgun. Samninganefnd Samiðnar veitti formanni sambandsins umboð til að vinna að slíkri stefnumótun enda hefði hún rými fyrir sérstöðu iðnaðarmanna m.a. hvað varðar lágmarks kauptaxta. Í byrjun vikunnar kom hins vegar í ljós að SA setti sem skilyrði fyrir frágangi kjarasamninga að komin væri niðurstaða í sjávarútvegsmálin en eins og kunnugt er hefur ríkisstjórnin boðað að hún muni leggja fram frumvarp til breytingar á núgildandi lögum um fiskveiðar og úthlutun kvóta og taka af allan vafa um rétt ríkisins til að ráðstafa auðlindum hafsins. Þegar þessi staða kom upp ákvað samninganefnd ASÍ að slíta viðræðum um sameiginlega launastefnu og beindi því til landssambanda og einstakra aðildarfélaga að taka við málinu og sækja fram hvert á sínu sviði.
Iðnaðarmannasamfélagið hélt fund í byrjun vikunnar og á þeim fundi var ákveðið að óska eftir fundi með SA sem fyrst og var sá fundur haldinn í dag föstudaginn 28. janúar. Á fundinum kynntu fulltrúar iðnaðarmanna þá hugmynd sína að gera skammtímasamning sem myndi m.a skapa SA og ríkisstjórninni tækifæri til að ljúka yfirstandandi deilu um fiskveiðimál. Hugmynd iðnaðarmanna er að það verði gerður nýr kjarasamningur til nokkra mánaða sem geti orðið hluti af heildarsamningi til lengri tíma ef samkomulag næðist um sjávarútvegsmálin á gildistíma samningsins. Samið yrði um launahækkanir sem kæmu strax til framkvæmda ásamt verkáætlun um þau mál sem þarf að ljúka til þess að hægt sé að gera kjarasamning til lengri tíma. Fulltrúar SA gerður grein fyrir áhuga sínum á að gera samning til langs tíma en höfnuðu ekki leið iðnaðarmanna að ná honum í fleiru en einu skrefi en gáfu heldur ekki jákvæð svör en lýstu því yfir að tillagan yrði tekin til umræðu á stjórnarfundi SA n.k. þriðjudag. Næsti fundur með SA verður n.k. fimmtudag kl. 13.00 og þá kemur í ljós hvað meðferð tillaga Samiðnar um skammtíma samning fær.
Haldinn var einn fundur með Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem farið var yfir sérkröfur sem snúa eingöngu að þeim og ákveðið að halda annan fund 4. febrúar þarf sem farið verður yfir launatöflu og innröðun í hana.
Haldinn var einn fundur með samninganefnd Reykjavikurborgar og á þeim fundi var farið yfir nokkur atriði sem snúa eingöngu að Reykjavíkurborg. Ekki er fyrirhugaður annar samningafundur en gert ráð fyrir að halda fund með Reykjavíkurborg og fara í gegnum innkaupastefnu borgarinnar.
Fundur var haldinn með fulltrúum frá Bílgreinasambandinu þar sem rætt var um stöðu viðræðna og hugsanlegan skammtíma samning. Gert er ráð fyrir að eiga fund með sambandinu eftir fund með SA n.k. fimmtudag.
Vinna hefur verið í gangi í undirhóp sem er að skoða gerviverktöku, kennitöluflakk o.fl., vinnan er að komast á góðan skrið og verður framhaldið í næstu viku.