Formaður Samiðnar Finnbjörn A. Hermannsson átelur stjórnvöld í nýútkomnu Samiðnarblaði fyrir aðgerðarleysi í mótun framtíðarstefnu í atvinnumálum og hvetur alþingismenn til ákvarðanatöku í stað óraunhæfra tillagna og yfirboða um flata niðurfellingu skulda á kostnað almennu lífeyrissjóðanna:
Við sem þjóð verðum að standa saman
Að undanförnu hafa aðildarfélög Samiðnar haldið fundi í stjórnum og trúnaðarráðum auk félagsfunda til að móta hugmyndir að kröfum vegna komandi samninga. Með nesti frá öllum þessum fundum hélt Samiðn ráðstefnu stjórnar og trúnaðarmanna aðildarfélaganna um miðjan október. Ráðstefnunni verða gerð góð skil hér í blaðinu svo ég ætla ekki að tíunda niðurstöðurnar að öðru leyti en því að nefna samhljóm fundarmanna varðandi aðferðafræði. Fundarmenn töluðu einum rómi um að ef nást eiga samningar sem halda inní framtíðina og eiga að skila launamönnum ávinningi þarf mjög breiða samstöðu. Fólk vill sjá kaupmáttaraukningu, réttlátara skattakerfi, lækkun matvöruverðs, lækkun opinberrar þjónustu ofl. Við viljum sjá að allt samfélagið taki sér tak og hugsi um þjóðarhag.
Verðum að standa saman
Þessi samhljómur var einnig á ársfundi ASÍ. Hvers vegna? Líklega vegna þess að fólk veit að við sem þjóð verðum að standa saman. Við getum ekki endalaust horft til fortíðar og velt fyrir okkur hvað gerðist. Dómsmálin eru komin í farveg og við verðum að treysta þeim aðilum sem gera eiga hrunið upp. Við ætlum að lifa áfram og byggja upp til framtíðar. Til þess þurfum við að auka kaupmátt, létta skuldaklafa af fjölda heimila og koma 15 þúsund manns í vinnu sem eru án
atvinnu í dag.
Lífskjör á Íslandi eru orðin það léleg að það er að bresta á landflótti. Við verðum vör við það í þeim greinum sem eru innan Samiðnar. Það eru ekki bara atvinnulausu félagarnir sem eru að fara út og freista gæfunnar. Í mjög mörgum tilfellum eru menn að fara úr tiltölulega öruggum störfum en þeir sætta sig ekki við kaupmáttinn og ruglið sem gengur yfir um þessar mundir. Á því verða atvinnurekendur líka að átta sig. Nýlega lét framkvæmdastjóri SA hafa það eftir sér að miða yrði launahækkanir við það sem verið er að semja um á Norðurlöndunum. Ég væri til í að skrifa undir slíkan samning ef við myndum einnig miða við kaupmátt, verðlag og annað félagslegt umhverfi á Norðurlöndunum. Ef við ætlum ekki að skipta um áhöfn á Íslandi verða allir aðilar að gera sér grein fyrir að kjarasamningarnir verða að bera það með sér að lífskjör hér nái fyrri styrk innan örfárra ára. Hluti þeirra kjarabóta sem við verðum að sjá fyrir endann á er jöfnun lífeyris milli almenna og opinbera markaðarins.
Skuldavandinn er ekki einsleitur
Skuldavandi heimilanna stækkar og stækkar á meðan ekki er tekið á honum. Það er búið að vera vitað í langan tíma að ekki er hægt að gera allt fyrir alla. Ríkisstjórnin hefur komið fram með margar tillögur og úrræði, mörg hver sem gagnast mörgum heimilum. En skuldavandinn er ekki einsleitur og því hefur þurft margþætt úrræði. Stór hópur hefur ekkert gert í sínum málum þar sem lýðskrumarar hafa náð eyrum almennings um að hægt sé að gera miklu betur og allt uppí að fella allar skuldir almennings niður. Því miður hefur ríkisstjórnin fallið í þá gryfju að velja sér stundarfrið með því að taka undir óraunhæfar tillögur eins og að vera með flata niðurfellingu skulda og senda reikninginn á almennu lífeyrissjóðina. Allur vafi var tekinn af á Alþýðusambandsfundinum um að slík leið yrði ekki liðin. Það þarf líka að viðurkenna að hluti heimila var búinn að koma fjármálum sínum í slíka flækju að þeim er ekki viðbjargandi. En með því að sigta þann hóp út sem hægt er að bjarga og þarf á aðstoð að halda er hægt að gera mikið með tiltölulega litlum fjármunum. Svo er sem betur fer stærsti hópurinn sem bjargar sér sjálfur. ASÍ hefur allt frá hruni hamrað á tillögum til bjargar heimilunum sem ekki hafa fengið brautargengi. Þeir sem hafa haldið uppi umræðunni hafa afvegaleitt hana þvílíkt að vitræn umræða hefur ekki verið vinsæl. Hæst hafa þeir látið sem voru búnir að koma sínum málum í kalda kol löngu fyrir hrun. Þeir hafa verið álíka ábyrgir í málflutningi og í fjármálum. Þær tillögur sem komu úr nefnd ríkisstjórnar virðast sumar hverjar lofa góðu. Ég tel þetta síðasta tækifæri alþingis að snúa bökum saman og við eigum að gera þá kröfu til stjórnar og stjórnarandstöðu að koma fram með raunhæfar tillögur til lausnar og standa saman og segja hingað og ekki lengra við lýðskrumarana svo fólk fari að gera eitthvað raunhæft í sínum málum.
Takið ákvarðanir!
Ég tel líka að alþingi sé á síðasta snúningi að koma fram með raunhæfa framtíðarstefnu í atvinnumálum. Stjórnmálamenn geta verið í óraunhæfum yfirboðum þar eins og loddararnir í skuldamálum en þeir atvinnulausu verða jafn atvinnulausir. Störfum fjölgar ekki við það eitt að menn standi á alþingi og rífist um hvor sé með flottari tillögu í atvinnumálum eða hvorum sé um að kenna. Það eykur ekki hagvöxt og þar með ekki kaupmátt. En þetta sjónarspil þarf þjóðin að horfa uppá. Takið ákvarðanir!
Enn og aftur vilja félagsmenn Samiðnar leita allra leiða að ná fram auknum kaupmætti og aukinni atvinnu. Ef ekki með friði þá kunnum við enn fræðin um verkföll og allt sem því viðkemur. Það er ekki fyrsti og ekki annar valkostur okkar. Við ætlum að búa áfram í þessu landi með mannsæmandi kjör í góðum störfum. Við notum þær að
ferðir sem þarf til að ná þeim markmiðum.