Kaupmáttur launa jókst um 0,9% í júlí frá fyrri mánuði og er þetta annar mánuðurinn í röð sem kaupmáttur launa hefur aukist. Undanfarna 12 mánuði hefur kaupmáttur launa aukist um 1,1% og er það mikill viðsnúningur frá þróun síðustu missera, en allt frá ársbyrjun 2008 hefur kaupmáttur launa lækkað linnulaust vegna mikillar verðbólgu á sama tíma og laun hafa oft á tíðum staðið í stað eða jafnvel lækkað. Launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 0,3% í júlí frá fyrri mánuði á sama tíma og neysluverðlag lækkaði um 0,66% sem skýrir hækkun kaupmáttar nú. Undanfarna 12 mánaða hafa laun samkvæmt launavísitölunni hækkað um 6%. Það var Hagstofa Íslands sem birti vísitölu launa nú í morgun. Kaupmáttur launa hefur nú lækkað um 10,5% að jafnaði frá því í ársbyrjun 2008 og er nú á svipuðum stað og í ársbyrjun 2004. Því lætur nærri að kreppan hafi þurrkað upp alla kaupmáttaraukninguna sem varð á tímabilinu 2004-2008. Jákvæðari þróun virðist nú vera hafin í þróun launa og verðlags. Reikna má með því að kaupmáttur launa haldi áfram að vaxa á næstunni, ekki hvað síst vegna frekari hjöðnunar verðbólgunnar.
Sjá nánar Morgunkorn Íslandsbanka