Á sjötta þingi Samiðnar sem haldið var um helgina á Grand Hóteli og sótt var af hátt í tvöhundruð fulltrúum af landinu öllu, voru samþykktar ályktanir um atvinnumál, lífeyrismál og samstarf félaga og sambanda iðnaðarmanna. Finnbjörn A. Hermannsson frá Fagfélaginu var endurkjörinn formaður Samiðnar og Guðlaugur Karlsson frá Félagi iðn- og tæknigreina var kosinn í miðstjórn í stað Páls Sighvatssonar frá Iðnsveinafélagi Skgafjarðar sem ekki gaf kost á sér.
Í ályktun um atvinnumál er þess m.a. krafist:
– Að settar verði skýrar reglur um útboð og undirverktöku ásamt því að tryggja að útboðsgögn séu á íslensku.
– Unnið verði markvist að því að tryggja fagmennsku og réttindi með samvinnu atvinnurekanda og stéttarfélaga iðnaðarmanna þannig að launþegar séu ekki neyddir í undirverktöku.
– Breyta þarf skattakerfinu þannig að ekki sé mismunur milli launamanna og einstaklingsverktaka.
– Settar verði strangari reglur um starfsmannaleigur og stafsmannakort tekin upp eins fljótt og kostur er.
– Samiðn krefst þess að komið verði í veg fyrir kennitöluflakk. Þeir sem verða uppvísir að slíkri iðju verði útilokaðir frá fyrirtækjarekstri.
– Samiðn krefst þessa að íbúðalánasjóður verði styrktur til að koma þeim eignum sem sýnt er að ekki seljast næstu árin í sérstakt eignarhaldsfélag svo þau íþyngi ekki rekstri íbúðalánasjóðs og hafi áhrif á útlánavexti sjóðsins.
– Tryggja verður að bankarnir sem fengu forgjöf í afskrifuðum kröfum skili þeim til heimila og fyrirtækja.
– Tryggja verður að réttar upplýsingar séu notaðar þegar verið er að fjalla um meint offramboð á íbúðamarkaðinum. Samiðn krefst þess að úttekt verði gerð á markaðinum af hlutlausum aðilum.
Í ályktun um lífeyrismál var samþykkt að vísa stefnumótun í lífeyrismálum (sjá hér) til miðstjórnar Samiðnar til endanlegrar afgreiðslu.
Í ályktun um samstarf og skipulagsmál var samþykkt að boða til skipulagsráðstefnu Samiðnar í haust þar sem m.a. verði fjallað um hugleiðingar um breytingar á skipulagi ASÍ (sjá hér). Einnig var lagt til að Samiðn hefði forgöngu um að koma á formlegum samstarfsvettvangi stærstu félaga og sambanda iðnaðarmanna jafnframt sem skoðaður verði möguleiki á sameginlegu húsnæði og þjónustuskrifstofu iðnaðarmannafélaganna innan ASÍ.