Ályktanir 6þings Samiðnar

 

Samþykkt 6. þings Samiðnar um atvinnumál
 
 
 
Með dugnaði og skynsamlegri nýtingu auðlinda tókst Íslendingum að byggja upp eitt ríkasta samfélag veraldar á örfáum áratugum síðustu aldar. Ein mesta gæfa þjóðarinnar hefur verið að langtíma atvinnuleysi hefur ekki verið viðloðandi. Nú bendir margt til þess að hér sé að verða breyting á. Fjöldi einstaklinga er að festast í klóm atvinnuleysis og sér enga útgönguleið. Í svo litlu samfélagi  sem Íslandi er  engin leið að sætta sig við að fjöldi fólks sé sviptur þeim lífsgæðum sem fólgin er í því að vera virkur á vinnumarkaði. Samiðn krefst þess að staðið verði við fyrirheit sem gefin voru í stöðugleikasáttmálanum um öflugt átak til að örva atvinnusköpun og fjölga atvinnutækifærum. Með öflugu átaki í uppbyggingu í orku og stóriðju   skapast forsendur fyrir viðsnúningi í íslensku efnahagslífi og hagvexti. 
 
 
Íslendingar eiga gjöfular auðlindir sem geta skapað góð lífsskilyrði og tryggt að Ísland verði áfram í fremstu röð hvað varðar lífsskilyrði hér á landi. Fiskurinn í hafinu og orkan eru náttúruauðlindir sem þjóðin á sameiginlega og er uppspretta þjóðarauðs ef skynsamlega er á haldið. Mikilvægt er að leitað verði sátta um nýtingu og ráðstöfun þessa sameiginlega auðs og sköpuð verði festa í kringum nýtingarréttinn. Tryggja verður sjálfbærni og að ekki verði gengið á rétt komandi kynslóða. Mikilvægt er að allar ákvarðanir um nýtingu séu fyrst og fremst faglegar, lausar við duttlinga, tækifærismennsku og fyrst og fremst  sé horft til þjóðarhags en ekki sérhagsmuna.
 
Stuðla þarf að nýsköpun í atvinnulífinu sem eykur fjölbreytni starfa. Tryggja þarf fjárhagslegan stuðning við rannsóknir, nýsköpun og eflingu nýrra atvinnugreina. Mikið er af ónotuðu húsnæði sem nýta má fyrir nýsköpunarstarf og beinir Samiðn því til sveitarfélaga, ríkis og banka að þeir leggi til ónotað húsnæði til nokkurra ára án leigugjalds. 
 
Í engri atvinnugrein er ástandið eins slæmt og mannvirkjagerðinni. Erfitt aðgengi að fjármagni og offramboð á íbúðarhúsnæði hefur leitt til þess að dregið hefur úr verklegum framkvæmdum. Atvinnuleysið er mikið eða um 20% og hafa um 479 fyrirtæki orðið gjaldþrota frá ársbyrjun 2008. Mikilvægt er að þessari þróun verði snúið við og skorar Samiðn á  að sveitarfélög og ríki taki höndum saman og flýti framkvæmdum á meðan almennur samdráttur er í samfélaginu. Nú er tækifæri  til að ráðast í samgöngubætur og önnur samfélagsleg mikilvæg verkefni.
 
Samiðn lýsir áhyggjum af takmörkuðum atvinnutækifærum ungs fólks sem streymir út á vinnumarkaðinn á næstu misserum. Mikil hætta er á að fjöldi ungs fólks leiti tækifæra erlendis og setjist þar að til frambúðar verði ekkert að gert.  Við þessu er mikilvægt að bregðast og leita allra ráða til að skapa atvinnutækifæri ekki síst með því að örva þau fyrirtæki sem eru starfandi í landinu og eiga rekstarmöguleika. Í því sambandi er mikilvægt að ljúka sem fyrst fjárhagslegri endurskipulagningu og gera þær skipulagsbreytingar sem nauðsynlegar eru. Áframhaldandi óvissa   leiðir fyrst og fremst til samdráttar  og glataðra atvinnutækifæra.
 
Til að atvinnulífið geti tekið eðlilega við sér og snúið viðvarandi samdrætti í sókn verður að afnema gjaldeyrishöft og koma vaxtakjörum í svipað horf og þekkist í samkeppnislöndunum. Áframhaldandi gjaldeyrishöft koma í veg fyrir eðlilega verðmyndum á markaði og viðskipti.
 
Staða heimilanna er þröng um þessar mundir m.a vegna gríðarlegrar skuldsetningar og minnkandi kaupmáttar. Þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir stjórnvalda til að aðlaga greiðslubyrði heimilanna að lækkandi ráðstöfunartekjum og aukinni greiðslubyrði glíma  24 þúsund heimili við fjárhagsvanda og þar af eru 16.000 þúsund með ráðstöfunartekjur undir 250.000 kr. á mánuði. Samiðn gerir þá kröfu til ríkisstjórnar og sveitarfélaga að  fundnar verði leiðir til koma þessum heimilum til aðstoðar. Það er óásættanlegt að þúsundir fjölskyldna lendi í klóm fátæktar til langrar framtíðar.
 
Áfram er gert ráð fyrir samdrætti í fjárfestingum í íbúðarhúsnæði á þessu ári og þær dragist saman um 15% í ár og um 2% á næsta ári en fari svo að taka við sér á nýjan leik 2012. Gangi þetta eftir er ljóst að grípa þarf til aðgerða til að örva fasteignamarkaðinn og gera fólki auðveldara að festa sér húsnæði. Skapa þarf fólki fleiri möguleika  til að festa sér öruggt húsnæði en að kaupa. Innleiða þarf leigu- og búseturéttar fyrirkomulag og skapa þannig umgjörð að fólki finnist það áhugaverður kostur. Einnig þarf að huga sérstaklega að stöðu þeirra tekjulægstu og byggja upp félagslegt húsnæði.
 
 
– Samiðn krefst þess að settar verði skýrar reglur um útboð og undirverktöku ásamt því að tryggja að útboðsgögn séu á íslensku.
– Unnið verði markvist að því að tryggja fagmennsku og réttindi með samvinnu atvinnurekanda og stéttarfélaga iðnaðarmanna þannig að launþegar séu ekki neyddir í undirverktöku.
– Breyta þarf skattakerfinu þannig að ekki sé mismunur milli launamanna og einstaklingsverktaka.
– Settar verði strangari reglur um starfsmannaleigur og stafsmannakort tekin upp eins fljótt og kostur er.
– Samiðn krefst þess að komið verði í veg fyrir kennitöluflakk. Þeir sem verða uppvísir að slíkri iðju verði útilokaðir frá fyrirtækjarekstri.
– Samiðn krefst þessa að íbúðalánasjóður verði styrktur til að koma þeim eignum sem sýnt er að ekki seljast næstu árin í sérstakt eignarhaldsfélag svo þau íþyngi ekki rekstri íbúðalánasjóðs og hafi áhrif á útlánavexti sjóðsins.
– Tryggja verður að bankarnir sem fengu forgjöf í afskrifuðum kröfum skili þeim til heimila og fyrirtækja.
– Tryggja verður að réttar upplýsingar séu notaðar þegar verið er að fjalla um meint offramboð á íbúðamarkaðinum. Samiðn krefst þess að úttekt verði gerð á markaðinum af hlutlausum aðilum.
 
 
 
Samþykkt 6. þings Samiðnar um samstarfsmál
 
Hugleiðingum um breytingar á skipulagi ASÍ (sjá hér) verði vísað til frekari umræðu í aðildarfélögunum.
Boðað verði til skipulagsráðstefnu Samiðnar í október 2010. Hvatt er til að félögin undirbúi fulltrúa sína fyrir ráðstefnuna sem verður með svipuðu sniði og skipulagsumræða ASÍ.
Sjötta þing Samiðnar leggur til að Samiðn hafi forgöngu um að komið verði á laggirnar formlegum samráðsvettvangi stærstu félaga og sambanda iðnaðarmanna.
Sjötta þingið samþykkir jafnframt að skoðaður verði möguleiki á sameiginlegu húsnæði þeirra og sameiginlegri þjónustuskrifstofu iðnaðarmannafélaganna innan ASÍ.
 
 
 
Samþykkt 6. þings Samiðnar um lífeyrismál
 
Sjötta þing Samiðnar samþykkir að vísa stefnumótun í lífeyrissjóðsmálum (sjá hér) til miðstjórnar Samiðnar til endanlegrar afgreiðslu.