Miðstjórn Samiðnar samþykkti á fundi sínum nýverið ályktun þar sem stjórnvöld eru hvött til að mæta fjárhagserfiðleikum heimilanna út frá kaupmætti lántakenda þar sem um algjöran forsendubrest er að ræða sé miðað við þau kjör sem voru til grundvallar lántöku.
Ályktunin í heild:
Mikil verðbólga, fall krónunnar og lækkandi húsnæðisverð hefur skapað algjöran forsendubrest hjá lántakendum og leikið mörg heimili mjög illa fjárhagslega. Nú er svo komið að fjöldi íslenskra heimila eru mjög skuldsett og tæknilega gjaldþrota. Ríkisstjórnin og bankarnir hafa gripið til margvíslegra aðgerða til að mæta fjárhagserfiðleikum heimilanna en þær hafa ekki skilað þeim árangri sem til var ætlast enda hefur verðbólgan verið mun meiri en gert var ráð fyrir og krónan veikst umfram það sem vænta mátti.
Allar forsendur sem lagðar voru til grundvallar við lántökur til húsnæðiskaupa og bílakaupa eru brostnar og því er mjög brýnt að gripið verði til róttækra aðgerða til að forða fjölda heimila frá gjaldþroti og þeim félagslegu vandamálum sem því er samfara. Aðgerðirnar verða að taka mið af minnkandi kaupmætti heimilanna og skapa forsendur til að hægt sé að vinna sig út úr skuldunum án þess að fjölskyldur verði settar í fjárhagslega fjötra til langrar framtíðar. Tryggja þarf að fólk sem eru svo skuldsett að það hefur engar fjárhagslegar forsendur til að standa undir greiðslubyrði lánanna, hafi möguleika á að fara frá skuldunum án þess að það verði dæmt sem óreiðufólk. Einnig er mikilvægt að aðgerðirnar miði að því að koma í veg fyrir að á næstu misserum fjölgi þeim sem lenda í greiðsluerfiðleikum.
Mikilvægt er að eyða þeirri óbærilegu óvissu sem nú ríkir á fjölmörgum heimilum landsins vegna mikilla fjárhagslegra erfiðleika.
Verði ekki fundin ásættanleg leið til þess að létta af þeirri þungu skuldabyrði sem hvílir á íslenskum heimilum mun engin sátt verða um endurreisn íslensks samfélags.