Miðstjórn Samiðnar samþykkti eftirfarandi umsögn um þingsályktunartillögur um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu á fundi sínum þann 9.júní s.l.:
„Umsögn Samiðnar um 38. mál, tillaga til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og 54. mál, tillaga til þingsályktunar um undirbúning mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.
Samiðn telur eðlilegt að fjalla um 38. mál, og 54. mál, í sömu umsögninni, enda verður að telja að þær gangi í hliðstæða átt og leiði til sömu niðurstöðu þrátt fyrir að nálgunin sé ekki sú sama.
Samiðn gerir ekki athugasemd við 38. mál, enda telur sambandið mikilvægt að sótt verði um aðild að ESB sem fyrst svo hægt verði að hefja umsóknarferilinn sem að öllu jöfnu tekur mörg misseri. Það er afar mikilvægt fyrir endurreisn íslensks atvinnulífs sem framundan er að fyrir liggi hver framtíðarstaða landsins verður gagnvart ESB, ekki síst varðandi framtíðarskipan gjaldmiðilsins. Samiðn leggur áherslu á að hugsanlegur samningur milli Íslands og ESB verði lagður fyrir þjóðina þegar hann liggur endanlega fyrir. Einnig leggur Samiðn áherslu á að reynt verði að skapa víðtæka samstöðu um aðildarumsóknina, bæði meðal þingmanna og þjóðarinnar, og tryggð verði aðkoma verkalýðshreyfingarinnar á öllum stigum málsins.
Æskilegt er að samkomulag takist um að umsókn um aðild að ESB verði send sem fyrst eða eigi síðar en í júlí mánuði n.k. þannig að hún komi til umfjöllunar á fundi utanríkisráðherra ESB sem haldin er í þeim mánuði. Jafnframt verði unnið áfram af hálfu utanríkismálanefndar Alþingis við að ná samstöðu um samningsmarkmið og mótun vinnuferla, enda liggur fyrir að umsóknin verður ekki tekin til afgreiðslu af hálfu ESB fyrr en í desembermánuði n.k.
Með víðtækri samstöðu um umsóknarferilinn og vinnufyrirkomulag gefst góður tími til að huga að þeim efnisatriðum sem upp eru talin í 54. máli, tillaga til þingsályktun um undirbúning mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.“