Forysta Samiðnar hélt fund s.l. fimmtudag með Gunnari Svavarssyni formanni fjárlaganefndar Alþingis og fyrirhugar á næstu dögum fundi með iðnaðarráðherra, samgönguráðherra, fulltrúum Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar, forstöðumönnum Framkvæmdasýslu ríkisins og Fasteigna ríkissjóðs.
Tilefni fundanna er það alvarlega ástand sem ríkir á vinnumarkaði og þá sérstaklega í bygginga- og mannvirkjagerð, en Samiðn vill leggja sitt af mörkum og fá upplýsingar frá fyrstu hendi um þær hugmyndir og tillögur sem miða að því að fyrirbyggja og draga úr atvinnuleysi meðal félagsmanna. Á fundunum mun Samiðn leggja á það ríka áherslu að opinberir aðilar beini augum sínum að mannaflsfrekum viðhalds- og stofnframkvæmdum í verkefnavali.