Íslendingar standa nú frammi fyrir alvarlegustu efnahagserfiðleikum sem þeir hafa gengið í gegnum á lýðveldistímanum. Mikil ólga er í samfélaginu þessu samfara og erfitt að átta sig á hvert stefnir á næstu mánuðum og misserum. Flestir eru þó þeirrar skoðunar að til lengri tíma litið sé bjart framundan, þótt allt útlit sé fyrir að næstu ár verði erfið. Mestu skipti, hvort sem litið er til lengri tíma eða skemmri, að horfst sé í augu við þann vanda sem við blasir og honum sé mætt fumlaust og af einurð.
Undanfarinn áratug hafa verið gerð mikil mistök í efnahagsstjórn landsins. Sú alþjóðlega fjármálakreppa sem nú stendur yfir magnar síðan erfiðleikana. Mikilvægt er að hafa í huga að þetta er ekki fyrsta efnahagskreppan sem Íslendingar hafa gengið í gegnum, þrátt fyrir að hún kunni að vera með þeim dýpstu og ef til vill sú dýpsta. Þegar horft er yfir hagsögu lýðveldisins kemur í ljós mikill og viðvarandi óstöðugleiki, þar sem skiptast á háir toppar og djúpar lægðir. Óstöðugleiki af þessu tagi einkennir oftast örsmá hagkerfi eins og það íslenska.
Íslenska þjóðin hefur allar forsendur til þess að sigrast á erfiðleikunum, ef hún nýtir sér þau tækifæri sem hún hefur. Hún býr yfir ótrúlegri seiglu og dugnaði sem munu nýtast henni sem aldrei fyrr við endurreisn efnahagslífsins. Til þess þarf að skapa henni tækifæri og hagstæð skilyrði. Það þýðir meðal annars að gera verður grundvallarbreytingar á efnahagsumhverfinu þannig að hér skapist forsendur fyrir stöðugleika. Jafnvægi í efnahagsmálum, á grundvelli traustrar stefnu í peningamálum, er forsenda varanlegra framfara í þjóðarbúskapnum.
Efnahagslegur stöðugleiki er forsenda uppbyggingarstarfsins sem framundan er. Honum verður ekki náð með krónunni sem gjaldmiðli þjóðarinnar. Brýnt er að taka sem fyrst ákvörðun um framtíðargjaldmiðil. Rétt er að stíga skrefið til fulls og taka upp evru, en til þess þarf að stefna að fullri aðild að ESB í náinni framtíð.
Það er nauðsynlegt að endurskoða regluverk banka og fjármálafyrirtækja, með það að markmiði að reglur um heimildir fjármálafyrirtækja til skuldsetningar verði gerðar skýrari og kröfur um hlutfall handfastra eigna á móti skuldum verði hertar. Auka þarf stuðning við nýsköpun, efla menntun sem henni tengist og auka stuðning og möguleika sprotafyrirtækja. Halda verður áfram uppbyggingu raforkuvera og tengdum iðnaði, en leggja áherslu á meiri fjölbreytni en gert hefur verið. Mikilvægt er að tryggja rekstrarumhverfi hefðbundinna atvinnugreina, svo sem í landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði og ekki síst í ferðaþjónustu, og nýta þau fjölmörgu tækifæri sem eru til fullvinnslu í þessum greinum.
Mikilvægast af öllu er velferð heimilanna, en hún byggist fyrst og síðast á traustu atvinnulífi og stöðugleika. Það ber að fagna boðuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að styrkja heimilin og auðvelda fjölskyldum að bregðast við vaxandi erfiðleikum, meðal annars vegna afborgana af húsnæði.
Framundan eru erfiðir mánuðir fyrir margar fjölskyldur og fyrirtæki en ef vel er á haldið ætti að birta með hækkandi sól. Íslenskt atvinnulíf er betur en oft áður búið undir að að takast á við það ögrandi verkefni sem framundan er. Þrátt fyrir að myndin sé dökk sem dregin er upp er Ísland auðugt, með dýrmætar náttúruauðlindir og mikinn mannauð. Ef vel tekst til er framtíðin björt og Íslendingar geta vænst þess að lífskjör á Íslandi verði áfram með því besta sem þekkist, þrátt fyrir að um stund þrengi að.