Í Morgunblaðinu í dag kynnir Óskar Bergsson, formaður borgarráðs aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar og telur að með henni sé Reykjavíkurborg að senda atvinnulífinu skýr skilaboð. Í aðgerðaráætluninni stendur m.a. „ Leitast verður við að tryggja fjármagn fyrir nauðsynlegum framkvæmdum. Forgangsröðun framkvæmda verður endurskoðuð en framkvæmdum eða verkefnum sem geta beðið eða kalla á aukinn rekstrarkostnað, verður frestað eða dregið úr kostnaði vegna þeirra. Við ofangreint mat verði jafnframt tekið mið af áhrifum á atvinnustigi.“
Það er mikilvægt að saman fari orð og athafnir stjórnmálamanna. Á sama tíma og borgarstjórn afgreiðir aðgerðaráætlun ákveður hún að taka tilboði í tvo grunnskóla frá erlendu verktakafyrirtæki, þrátt fyrir að fyrir liggi að verktakinn ætli fyrst og fremst að framkvæma verkið með starfsmönnun sem koma erlendis frá. Með þessari ákvörðum borgarinnar hefur hún ákveðið að flytja úr landi 120 ársverk úr byggingariðnaði. Þetta gerist á sama tíma og borgin leggur áherslu á að taki eigi tillit til atvinnustigs í aðgerðaráætluninni. Þetta gerist á sama tíma og fjöldauppsagnir eru í gangi.
Miðað við óbreyttar aðstæður í íslensku samfélagi má búast við miklu atvinnuleysi í bygginga-og mannvirkjagerð. Víð slíkar aðstæður ber stjórnvöldum skylda til að grípa allra þeirra úrræða sem þau hafa yfir að ráða. Samiðn gerir þá skýlausu kröfu til borgarstjórnar Reykjavíkur að haldið verði á með þeim hætti að allir fjármunir sem borgin hefur til verklegra framkvæmda verði nýttir til styðja við íslenskt atvinnulíf og til að skapa sem flest störf hér á landi.
Samiðn krefst þess, vegna núverandi ástands í íslensku samfélagi og með tilvísun í aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar að verksamningar vegna Sæmundarskóla og Norðlingaskóla verði teknir til endurskoðunar. Einnig krefst Samiðn þess að stjórnvöld, sveitarstjórnir og aðrir sem hyggjast á verklegar framkvæmdir á næstu mánuðum tryggi að verkefnin verði unnin af íslenskum verktakafyrirtækjum.