Pípað á heimsmeistaramóti í Japan

Árni Már Heimisson pípari tók þátt í heimsmeistaramóti iðnnema í Japan: – Óborganleg lífsreynsla

– Þetta var algert æði, upplifun sem ég hefði alls ekki viljað missa af. Þar að auki er ég margfalt betri fagmaður núna en þegar fór í þessa keppni, segir Árni Már Heimisson pípulagnasveinn en hann tók þátt í heimsmeistaramóti iðnnema í bænum Numazu í Japan í nóvember í fyrra, nokkru fyrir sveinsprófið.
– Þetta kom þannig til að ég sigraði á Íslandsmóti iðnnema í pípulögnum sem hér var haldið árið 2006. Það gaf mér keppnisrétt á Norðurlandamóti iðnnema sem fór fram í Málmhaugum í Svíþjóð ári síðar og þar fór ég með sigur af hólmi, segir Árni sem er fyrsti íslenski pípariðnneminn sem vinnur Norðurlandamót.

Lengi hefur tíðkast að iðnnemar víðsvegar úr heiminum reyni með sér á slíkum mótum en Íslendingar hafa verið nokkuð á eftir í þessum efnum. Á undanförnum árum hefur áhugi á slíkri keppni þó aukist hérlendis og nú eru árlega haldin iðnnemamót þar sem nemar reyna með sér.

– Það er ekki spurning að þetta á rétt á sér, segir Árni Már. – Þegar ég frétti fyrst af svona móti hér var ég ákveðinn að taka þátt í því og byrjaði strax að undirbúa mig. Ef maður ætlar að vera með á svona móti er nauðsynlegt að temja sér strax vönduð vinnubrögð. Auk þess verður að taka frá tíma til æfinga.

Þetta skilar sér þegar út á vettvanginn er komið, segir Árni sem býr að þeirri reynslu sem hann hlaut í Japan og þeirri miklu undirbúningsvinnu sem hann vann fyrir mótið. – Því miður dróst alltof lengi að fá endanlega á hreint hvort ég kæmist á heimsmeistaramótið. Það kallar á nokkuð mikil útgjöld að taka þátt í svonalöguðu. Þótt keppandinn sé bara einn er hver keppandi með aðstoðarmenn. Fyrstu hugmyndirnar gengu út á að taka þátt í mótinu sem gestaþjóð en síðan duttu Portúgalar út, það losnaði pláss og við skelltum okkur eftir að menntamálaráðuneytið ákvað að styðja við bakið á okkur. Meistarafélag pípulagningarmanna stóð í eldlínunni við undirbúninginn og fulltrúi þeirra var með í för. Einnig komu að málum Iða – fræðslumiðstöð sem sendi mann til að fylgjast með og kynna sér svona keppni. Síðan komu með mér fyrrverandi vinnuveitandi minn, Hjörtur Ingþórsson, og Smári Freyr Smárason, sem ég kalla þjálfarann minn. Þessir menn studdu mig gríðarlega í undirbúningnum. Auk afa sem er málmiðnaðarmaður og kenndi mér margt um logsuðu áður en ég fór. Það veitti ekki af öllum þessum stuðningi því þetta er mikið álag, fjögurra daga keppni og hörku-djobb. Það var byrjað eldsnemma á morgnana og verið að langt fram á dag, segir Árni sem gat lítið litast um í Japan en komst þó einn dag inn til Tókýó.

Heimsmeistaramót iðngreina er meira en hálfrar aldar gamalt fyrirbæri og fer fram annað hvert ár. Að sögn Árna er er keppt í fjölmörgum iðngreinum.

– Við komumst aldrei að því hvað það var keppt í mörgum greinum en keppendurnir skiptu hundruðum. Þar af börðust 26 um heimsmeistaratign í pípulögnum, segir Árni, en lyktir hjá honum urðu þær að falla á tíma, tókst ekki að ljúka verkefninu á þeim tíma sem tilskilinn var.

– Við vissum fyrirfram að þarna var verið að keppa í þeim hluta fagsins sem er nánast óþekktar hér á landi. Það var mikið lagt uppúr færni við hitabeygja rör, fylla þau af sandi og og hita þau síðan og beygja. Þetta þekkist varla hér. Einnig þurftum við að eyða miklu púðri í að silfurkveikja og logsjóða. Þá fólst einn hluti keppninnar í að leggja skolplagnir.

– Efstu menn voru allir frá Asíu og það kom á daginn að þessir piltar höfðu ekkert gert annað síðustu tvö ár en að undirbúa sig fyrir þetta mót, með góðum stuðningi frá vinnuveitendum sínum. Þannig kom sigurvegarinn frá Suður-Kóreu og var starfsmaður Hyundai-samsteypunnar, segir Árni sem er stoltur af því að hafa komist á þetta mót þótt árangurinn hafi ekki orðið sá sem hann vænti. – Ég vona bara að Íslendingar haldi áfram að taka þátt í þessu, þótt það kosti sitt. Faglega höfum við gott af því að bera okkur saman við aðrar þjóðir og þetta skilar sér bæði í betri fagþekkingu og auknum metnaði íslenskra iðnnema, segir Árni Már Heimisson pípari sem leikur sér að því þegar það hentar honum að hitabeygja rör, sem má meðal annars nýta sem handklæðaofn, milli þess að hann er á fullu í sinni iðngrein.