Nýlega gaf hagdeild ASÍ út efnahagsspá sína. Það er athyglisvert að skoða hana og velta fyrir sér hvað er í vændum í byggingar- og málmiðngreinum ef hún gengur eftir. Á næsta ári er spáð um 3ja prósenta atvinnuleysi á vinnumarkaðnum. Ekki er líklegt að það atvinnuleysi snerti opinbera eða hálfopinbera markaðinn. Því er ekki ólíklegt að á almenna vinnumarkaðnum verði um 5% atvinnuleysi ef þessar spár ganga eftir. Einnig er líklegt að atvinnuleysið komi misjafnt niður á starfsgreinum. Eins og stjórnvöld og bankar djöflast á að tala niður fasteignaverð og eftir að bankar hafa stoppað lán til framkvæmda þá er líklegt að byggingariðnaðurinn verði hvað verst úti í atvinnuleysinu. Það er með ólíkindum að lagst sé af slíkum þunga á eina atvinnugrein til sveiflujöfnunar í efnahagskerfi þjóðarinnar. Af fjölmörgum hagspám er ASÍ með þá sem spáir minnstu atvinnuleysi svo við vonum að þeir séu sannspáustu „spá-kerlingarnar“.
Á árunum 2004 til 2007 þegar allt var á suðupunkti í fram-kvæmdum var ríkisvaldinu bent á að nú væri tími að draga úr opinberum framkvæmdum. En ríkið fór sem aldrei fyrr í framkvæmdir. Nú þegar séð er að lægð verður næstu tvö árin eru komnar raddir um að ríkið dragi einnig úr framkvæmdum svo ekki verði halli á ríkis-sjóði. Forsvarsmenn fjárlaganefndar eru byrjaðir að tala niður framkvæmdir ríkissjóðs og þá helst framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu sem líklegt er að atvinnuleysi bitni hvað harðast á. Ég segi eins og kerlingin forðum þegar hún sá bát sigla framhjá bryggjunni og beint upp í fjöru: „Hvað skyldi báturinn vera að hugsa?“. Ég tel að ef báturinn hugsar eitthvað um þessar mundir eigi ríkisstjórnin að koma inn með vinnuaflsfrekar framkvæmdir, svo sem viðhaldsvinnu á húsnæði sínu, en ekki draga úr framkvæmdum. Þá siglir báturinn framhjá bryggjunni og upp í fjöru. Báturinn verður að fara að hugsa. Í þeirri eignaupptöku sem á sér stað um þessar mundir með óða- verðbólgu meðan heimilin eru skuldsett upp á tæplega þrenn árslaun ráðstöfunartekna af verðtryggðum lánum er óbjörgulegt að taka síðan atvinnuna af fólki til viðbótar með aðgerðaleysi. Við í verkalýðshreyfingunni getum barið okkur á brjóst og sagt að „við sögðum að þetta færi svona“ en það er til lítils. Forusta verkalýðshreyfingarinnar er búin að vera að reyna að ná eyrum ríkisstjórnarinnar í um hálft ár til að ræða það ástand sem við sjáum framundan og gera ráðstafanir. Forsætis- og utanríkisráðherrar hafa ekki haft tíma þegar þeir hafa millilent hér til að skila af sér óhreinum þvotti milli heimsreisa til að funda með hreyfingunni. Það verður mjög áleitin spurning þegar kemur að endurskoðun kjarasamninga í febrúar hvort forsenda framlengingar, ef við viljum skoða slíkt, verði ekki að ríkisstjórnin fari frá og fólk sem treystir sér til að taka á vandamálunum hér heima taki við. Nú sýnist mér það besta kjarabótin. En ég vona að ríkisstjórnin nýti sér hinn sterka meirihluta á alþingi til betri hluta en aðgerðaleysis. Kannski hressist Eyjólfur og verður á vetur setjandi.
Útlendingana heim?
Margar fyrirspurnir hafa borist aðildarfélögum Samiðnar um hvernig standa beri að uppsögnum. Undirtónn sumra fyrirspurna er hvort ekki sé eðlilegt að segja útlendingunum upp fyrst áður en hreyft verði við heimamönnum. Svar okkar hefur verið á einn veg, að allir skuli standa jafnir frammi fyrir uppsögnum. Það gilda vissar siðferð-isreglur um uppsagnir, svo sem að horft sé til starfsaldurs og einnig er eðlilegt að fyrirtæki „verji“ kjarnastarfsmenn sína. Þar eru erlendir starfsmenn jafnréttháir öðrum. Við verðum að sýna þessum erlendu starfsmönnum sanngirni. Það er ekki hægt að kalla þá til þegar mikið er að gera en vilja ekki verja þá þegar þrengir að. Ég hvet fyrirtæki og starfsmenn að leita fyrst allra leiða, svo sem að draga úr yfirvinnu eða beita annarri hagræðingu, áður en gripið verður til uppsagna. Það er mikill auður í vönu starfsfólki og þeim verkferlum og þekkingu sem starfsfólk býr yfir sem heild.
Finnbjörn A. Hermannsson,
formaður Samiðnar