Er byggingariðnaður á leið á válistann?

Blikur eru á lofti í íslensku efnahagslífi. Blikur sem ekki hafa farið framhjá nokkrum manni. Eins og svo oft áður þegar kreppir að er það byggingariðnaðurinn sem fyrst verður fyrir barðinu á efnahagslægðinni. Samdrátturinn í sölu íbúðarhúsnæðis hefur þegar leitt til uppsagna hjá einstökum fyrirtækjum sem hafa sérhæft sig í byggingu íbúða.

Þrátt fyrir slæma stöðu á þessum markaði var þokkalegt hljóð í forvígismönnum verktakafyrirtækja sem Samiðnarblaðið tók tali – en hætt er við að erlendu starfsmennirnir finni fyrstir fyrir breytingunum.
– Menn hafa verið að setja sig í samband við okkur og spyrja hvernig þeir eiga að standa að fjöldauppsögnum, en enn sem komið er hafa okkur ekki borist neinar slíkar tilkynningar, segir Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Samiðnar, aðspurður um hvort kreppan á íbúðarhúsnæðismarkaði sem hefur verið í umræðunni að undanförnu hafi komið inn á borð hjá stéttarfélagi byggingarmanna.
– Það er ljóst að mörg fyrirtæki sem hafa byggt starfsemi sína í kringum íbúðarhúsnæðismarkaðinn eiga í kröggum, og á þeim markaði ríkir mikil óvissa, segir Finnbjörn og er ósáttur við framkomu bankanna sem nú hafa nánast lokað fyrir allar lánveitingar til byggingar íbúðarhúsnæðis.
– Það er enginn samdráttur í farvatninu hjá okkur en verkefnastaðan er góð og allt útlit fyrir að svo verði áfram, segir Loftur Árnason forstjóri Ístaks, og bætir við að þau verkefni sem eru í hendi gefi ekki tilefni til annars en bjartsýni um að fyrirtækið haldi fullum dampi næstu 12–18 mánuði. Nú starfa um 750 manns hjá Ístaki. – Mörg stór verkefni bíða og ég efa ekki að við hreppum einhver þeirra, segir Loftur sem bíður meðal annars spenntur eftir að Sundabraut komi í útboð. Aðspurður um starfsmannaveltuna segir hann að hún sé ekki mikil og neitar því að þeir hjá Ístaki bíði eftir því að hreyfing komist á íslenska vinnumarkaðinn þannig að meira framboð verði af íslenskum iðnaðarmönnum.
– Flestir þeir erlendu starfsmenn sem hingað hafa komið á undanförnum árum eru ágætis fagmenn og harðduglegir til vinnu, en því miður fylgja erlendu vinnuafli ákveðin vandamál sem tengjast tungumálinu, og að auki eru íslenskir iðnaðarmenn öllum hnútum kunnugir í íslenskum byggingariðnaði og þeim aðferðum sem beitt er hér á landi. Það er kostur sem við horfum til, segir forstjóri Ístaks sem er langt í frá svartsýnn um framtíð íslensks byggingariðnaðar. – Allavega þurfum við ekki að kvíða framtíðinni hjá okkur, segir hann og leggur áherslu á að Ístak sé stórt verktakafyrirtæki með fjölbreytta starfsemi og margar stoðir að standa á.

Ris í góðum málum
– Við erum með næg verkefni næstu tólf mánuði, lengra sjáum við ekki, en höldum að sú kreppa sem herjar á byggingariðnaðinn um þessar mundir vari stutt. Við vitum af ýmsum verkefnum í pípunum, segir Magnús Jónsson framkvæmdastjóri Riss, en það fyrirtæki er umfangsmikið í byggingu atvinnuhúsnæðis og hefur verið nokkra hríð. – Ég þakka nú reyndar fyrir að við skulum ekki vera mikið í því að byggja íbúðarhúsnæði, og get vel ímyndað mér að þeir sem hafa sérhæft sig í því eigi í vandræðum. Magnús segir að helmingur starfsmanna hjá Ris séu útlendingar. Hann deilir þeirri ósk með forstjóra Ístaks að sá samdráttur sem á sér stað á íslenska byggingarmarkaðnum leiði til aukins framboðs af íslenskum iðnaðarmönnum.
– Okkur er engin launung á því að við viljum frekar manna vinnustaði okkar með íslenskum iðnarmönnum. Þar með er ég ekki að segja að þeir sem koma erlendis frá séu slæmur vinnukraftur, en því fylgja hins vegar margvísleg vandamál að byggja reksturinn á erlendu vinnuafli, segir Magnús og nefnir eins og Loftur að tungumálaörðugleikar séu mesti vandinn. Hann segist þess fullviss að byggingarmenn á Íslandi þurfi ekki að kvíða atvinnuleysi í nánustu framtíð.

Hagræðing hjá BYGG
– Við höfum brugðist við þessu ástandi með því að hagræða hjá okkur, og flutt mannskap í þau verk sem gefa eitthvað af sér. Við ætlum að reyna að halda öllum okkar mannskap en það er ljóst að við fækkum þeim undirverktökum sem hafa unnið fyrir okkur á undanförnum árum, segir Konráð Sigurðsson sviðsstjóri framkvæmda hjá Byggingafélagi Gylfa og Gunnars.
Fyrirtækið hefur verið umfangsmikið á íbúðarmarkaðnum á undanförnum árum og að sögn Konráðs á fyrirtækið talsvert af óseldum íbúðum.
– Við lifum þetta af. Það er ljóst að stjórnvöld verða að grípa í taumana og skapa aðstæður til að hleypa aftur lífi í þennan iðnað. Þúsundir manna hafa lifibrauð sitt af því að byggja og selja íbúðarhúsnæði og það er ekki hægt að búa við það að skrúfað sé fyrir fjármagn til þessa hluta byggingariðnaðarins, segir Konráð og bætir við að BYGG eigi mikið af lóðum og landi til að byggja á og að verkáætlanir þeirra næstu 10–15 árin gangi út á að nýta þessar lóðir og land til að byggja á íbúðarhúsnæði í framtíðinni.
Konráð segir að samdráttur í byggingariðnaðinum birtist ekki síst í því þessa dagana að nú sé hægt að fá menn til starfa. – Fyrir bara nokkrum mánuðum var ekkert framboð af vinnuafli. Nú er öldin önnur, og stöðugt áreiti frá mönnum sem vilja komast í vinnu, segir Konráð sem neitar því ekki að þetta sé á vissan hátt ákjósanleg staða fyrir fyrirtækin. – Nú er nóg framboð af hæfum mönnum og það léttir reksturinn, segir hann.

Ljós í myrkrinu
Samtök iðnaðarins stóðu nýlega fyrir fundi um ástand og horfur í byggingariðnaði. Á fundinum kom fram í ræðum frummælenda að þrátt fyrir dökkt útlit nú um stundir væri ljós í myrkrinu og voru menn sammála um að með skynsamlegum aðgerðum væri hægt að hafa áhrif á framtíðarhorfur í starfsgreininni.
Bjarni Már Gylfason hagfræðingur SI benti á að byggingariðnaðurinn hefði vaxið gríðarlega hratt á 3–4 árum. Margir samhangandi þættir hefðu valdið þessari þenslu en fyrst og fremst greiður aðgangur að ódýru lánsfé. Í ljósi þess hvað greinin var orðin stór yrði höggið nokkuð þungt ef kemur til alvarlegrar niðursveiflu. – Það er borðliggjandi að hér er offramboð af íbúðarhúsnæði, sagði hann og bætti við að líklegt væri að fasteignamarkaðurinn þyrtfti að éta upp offramleiðslu síðustu ára áður enn hann næði sér á strik á ný. Bjarni telur að það taki 1–2 ár og á því tímabili lækki íbúðarverð.

Verðlækkun
Í vorskýrslu hagdeildar ASÍ frá í maí er fjallað nokkuð um stöðu á íbúðarhúsnæðismarkaðnum og segir þar meðal annars:
„Mikið framboð á ódýru lánsfé samhliða kerfisbreytingu á íbúðalánamarkaði, vaxandi kaupgetu og fjölgun landsmanna hefur á undanförnum árum aukið eftirspurn og ýtt undir mikla fjárfestingu í íbúðarhúsnæði. Á árunum 2004–2007 voru samtals byggðar 12 þús. nýjar íbúðir en til samanburðar voru á tíu árum þar á undan byggðar um 16 þús. íbúðir. Flest bendir til þess að enn sé töluvert af íbúðarhúsnæði í byggingu sem komi á markaðinn síðar á þessu ári og því næsta. Framboð á nýju húsnæði er því mjög mikið um þessar mundir á sama tíma og verulega hefur dregið úr eftirspurn.

Ýmis merki hafa sést um samdrátt á fasteignamarkaði undanfarna mánuði, fáum kaupsamningum hefur verið þinglýst og verð á húsnæði lækkaði lítillega bæði í febrúar- og marsmánuði.

Versnandi aðgengi heimila að lánsfé til íbúðakaupa, hækkandi vextir og aukin greiðslubyrði ásamt minnkandi kaupgetu og minni fólksfjölgun eru allt þættir sem draga úr eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði.

Mikið framboð á húsnæði samhliða lítilli eftirspurn og erfiðri rekstrarstöðu byggingaverktaka mun knýja fram verðlækkun á íbúðarhúsnæði. Hagdeildin gerir ráð fyrir því að raunvirði húsnæðis lækki um 20–25% á næstu þremur árum. Horfur eru á að samdráttur í íbúðafjárfestingum verði sá mesti síðan um miðjan níunda áratuginn. Mjög erfitt er að fjármagna byggingarframkvæmdir um þessar mundir og dæmi eru um að úthlutuðum lóðum hafi verið skilað inn vegna fjármögnunarerfiðleika. Við spáum því að fjárfesting í íbúðarhúsnæði standi í stað á þessu ári en dragist saman um 12% á því næsta og um 10% árið 2010.“