Leiðari Samiðnarblaðsins: Bygginga- og mannvirkjagerð í klakaböndum

Við bygginga- og mannvirkjagerð starfa um 15 þúsund manns og ekki er óvarlegt að halda því fram að um 45 til 50 þúsund manns byggi lífsafkomu sína með einum eða öðrum hætti á henni. Til viðbótar eru öll afleiddu störfin, til dæmis í verslun og ýmiss konar þjónustu. Starfsmannaflóran tekur til margra starfsstétta verkamanna, iðnaðarmanna og háskólamenntaðs fólks. Samdráttur í atvinnugreininni snertir því mjög marga í formi uppsagna starfsmanna og minni tekna heimilanna, samdráttar í verslun og skorti á verkefnum hjá verkfræðistofum. Hið opinbera verður af miklum tekjum í formi minni skatta einstaklinga og veltuskatta fyrirtækja. Bygginga- og mannvirkjagerð er ein af kjarnagreinum atvinnulífsins og mikill samdráttur í greininni hefur því veruleg áhrif og leiðir til samdráttar í efnahagslífinu og minni hagvaxtar. Bygginga- og mannvirkjagerðin hefur gengið í gegnum mikið uppgangsskeið síðustu fimm til sex ár, sem birst hefur í mikilli eftirspurn eftir starfsfólki og gríðarlegri framleiðslu nýs húsnæðis. Gott og langt hagvaxtarskeið með vaxandi kaupmætti hefur leitt til mikillar þenslu á fasteignamarkaði með gríðarlegri eftirspurn eftir nýju húsnæði og verðhækkunum. Hægt er að fullyrða að verð á íbúðarhúsnæði hafi farið yfir skynsamleg mörk og verð á almennu íbúðarhúsnæði hafi verið komið fram úr kaupmætti stórs hluta almennings. Við blasti að markaðurinn mundi fyrr eða síðar rétta verðin af en áður en það gerðist tóku stjórnvöld að handstýra markaðnum með því að hvetja almenning til að halda að sér höndum og fara ekki í íbúðarkaup, og með því keyra vexti upp með hækkun stýrivaxta. Handstýring stjórnvalda með þessum hætti verður að teljast óheppileg og samræmist ekki nútíma stjórnarháttum enda blasa afleiðingarnar við, klakabönd eru að leggjast yfir atvinnugreinina sem erfitt getur reynst að þíða.

Viðskipti með íbúðarhúsnæði hafa ekki verið minni um langt árabil. Verktakar sitja uppi með mikið af óseldum íbúðum, vaxtagreiðslur af framkvæmdalánum mergsjúga þá og þeir eru farnir að bregðast við með því að segja upp starfsfólki. Ef ekkert verður að gert blasa við gjaldþrot og mikið atvinnuleysi á næstu mánuðum með öllum þeim hörmungum sem því fylgja.
Stjórnvöld geta brugðist við með margvíslegum hætti:
– Hrinda í framkvæmd fyrirhuguðu átaki í að fjölga leiguhúsnæði fyrir tekjulága. Gert er ráð fyrir að á næstu fjórum árum verði fjölgað um 400 íbúðir á ári.
– Bregðast við lánsfjárkreppunni með því að breyta reglum Íbúðalánasjóðs, m.a. með því að hækka lánshlutfall í allt að 90% og miða veðheimild við markaðsverð en ekki brunabótamat.
– Fella niður stimpilgjöld, ekki eingöngu af fyrstu íbúð eins og fyrirhugað er.
– Grípa til aðgerða til að auðvelda ungu fólki að kaupa fyrstu íbúð sína með því að taka upp sérstakar vaxtabætur vegna fyrstu íbúðarkaupa.
– Aukið fjármagn verði sett í verklegar framkvæmdir og framkvæmdum á borð við Sundabraut flýtt sem kostur er.
– Haldið verði áfram uppbyggingu stóriðju og orkuvera.
– Ríkið setji stóraukið fjármagn í viðhald opinberra mannvirkja.
Til allra þessara aðgerða geta stjórnvöld gripið ef vilji er fyrir hendi. Ábyrgð stjórnvalda er mikil á því ástandi sem er að skapast í bygginga- og mannvirkjagerð og þeim ber skylda til að bregðast við og koma í veg fyrir alkulnun. Allar aðgerðir til að afstýra kreppuástandi og miklu atvinnuleysi skila sér margfalt til baka til samfélagsins. Samiðn kallar eftir skjótum úrræðum og lýsir sig tilbúna til samstarfs. Allt sem þarf er áræði, framsýni og styrk efnahagsstjórn.