Enginn getur allt en allir geta eitthvað

Heimir Björn Janusarson skrifar um umhverfismál

Það er sagt að ef fiðrildi blakar vængjunum í Kína geti það valdið fellibyl á Kúbu. Þetta er auðvitað dæmisaga en einhverstaðar á vindurinn upptök sín og „léttvæg“ áhrif á umhverfið á einum stað geta valdið stórskaða á öðrum. Umræðan um hlýnun jarðar hefur tekið á sig ýmsar myndir. Deilt hefur verið um hvort hlýnun sé af mannavöldum eða ekki eða hvort þetta sé ekki hið besta mál. „Okkur veitir nú ekki af smá-hlýnun hér á hjaranum,“ segja sumir, en samkvæmt hlýnunarspá fyrir Ísland hækkar ekki endilega sumarhitinn heldur verða færri frostdagar á vetrum. Semsagt minni snjór en meiri rigning á veturna. Þá bráðna jöklar yfir sumarið en minni snjór fellur á veturna til endurnýjunar og við þessa bráðnun jökla hækkar yfirborð sjávar, Er verið að tala um allt frá 0,7 metrum og tölur hafa heyrst um allt að 3 metra hækkun. Hækkun sjávaryfirborðs þýðir að öll eldri hafnarmannvirki fara á kaf á stórstreymi og þarf ekki djúpar lægðir til að allt fari á kaf á hafnarsvæðum. Nýrri hafnarmannvirki gera ráð fyrir þessari hækkun sjávar. Hugsum okkur sjávarþorpin úti um allt
land sem standa á eyrum og töngum þar sem jafnvel eru sögur um að sjór hafi gengið á land fyrr á öldum í stórviðrum. Hver verða áhrif hækkunar sjávar á þær byggðir?
En þetta eru smámunir miðað við það sem getur gerst í Afríku, Asíu og í suðurríkjum Bandaríkjana þar sem þéttasta byggðin er á óshólmum og fenjasvæðum sem standa nánast í sjávarborðshæð, og jafnvel undir sjávarmáli eins og sum hverfin í New Orleans sem fóru illa út úr fellibylnum hér um árið þegar varnargarðar héldu ekki.
 
Umhverfisumræðan á Íslandi var lengi vel föst í „með eða á móti hvalveiðum“ eða lúpínurækt á söndum, en hefur tekið stórstígum framförum og fólk er farið að horfa á umhverfismál í miklu víðara samhengi. Það eru ekki síst stórverkefni eins og Staðardagskrá 21 sem hafa frætt og virkjað almenning. Eitt af lykilatriðum í þeirri dagskrá er að hugsa á heimsvísu og vinna á heimavelli (Think global, act local, á ensku) og vera meðvitaður um að enginn getur allt en allir geta eitthvað. Og er frábært að sjá hvað leikskólar og grunnskólar hafa staðið sig vel í fræðslu og vakningu í þessum fræðum.
 
Hvort sem hlýnun jarðar er af mannavöldum eður ei eru allir orðnir sammála um það að þær birgðir sem til eru í jörðu af jarðefnaeldneyti, svo sem olíu og kolum, endast bara næstu 60–70 ár, og þá bara ef við aukum ekki notkun þessara efna meira en orðið er. Með öðrum orðum: Þegar barn sem fæðist í dag fer á eftirlaun er tankurinn tómur!
 
En við vitum að orkuþörf heimsins á bara eftir að aukast. Því meira sem við notum af þessum lager, því fyrr verður hann búinn og þar af leiðandi er styttri tími til þess að þróa og finna upp nýja orkugjafa.
 
Einhver sagði að við ættum ekki heiminn heldur að við værum með hann að láni frá börnum okkar. Það er einmitt grunnhugmyndin um sjálfbæra þróun að við skiljum við veröldina, þegar þar að kemur, í ekki verra ástandi en þegar við fengum hana til varðveislu. Og það lendir á þeirri kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi að leysa þessi vandamál er við komum þeim í.
 
Hverju sem menn vilja trúa í þessum efnum þá segir það sig sjálft að hverskonar sóun á náttúruauðlindum er ekkert betri en hver önnur eyðsla af þeim höfuðstól sem við höfum aðgang að og ætti að öllu jöfnu að ganga til afkomenda okkar og vaxa frekar en hitt.
 
Og hvað getum við gert? Ég held að hollast fyrir okkur nútímamenn væri að staldra ögn við og skoða atferli okkar. Í hvað erum við að eyða orkunni? Förum við á bíl í líkamsræktina? Erum við að skutla börnum okkar nokkurhundruð metra, og horfum á þau fitna? Kaupum við innflutta vöru þegar sama vara fæst frá íslenskum framleiðanda? Er virkilega þörf á tveimur bílum? Þegar það kostar milljón á ári að eiga bíl, af hverju viljum við þá frítt í strætó?
 
Hugsum um hvernig veröld við viljum að barnabörn okkar erfi og högum okkur samkvæmt því.