Nýr kjarasamningur við Samtök atvinnulífsins

Nýr kjarasamningur var undirritaður í gærkvöldi á milli Samiðnar og SA og annarra samstarfsaðila í ASÍ með gildistíma til þriggja ára með endurskoðunarákvæði. 

Launaþróunartrygging
Megin uppistaðan í samningnum er 5,5% launaþróunartrygging sem gildir frá 1.febrúar 2008, 3,5% launaþróunartrygging 1.mars á næsta ári og 2,5% almenn hækkun 1.janúar árið 2010. Launaþróunartrygging felur í sér að tímabilið frá 2.jan. 2007 til 1.feb. 2008 er skoðað og þær launahækkanir sem starfsmaðurinn hefur fengið á tímabilinu dragast frá 5,5% hækkuninni.  Þannig fær einstaklingur sem ekki hefur fengið neina launahækkun á þessu tímabili hækkunina að fullu en hafi hann fengið t.d. 2% hækkun á tímabilinu þá fær hann 3.5% hækkun við undirritun þar sem 2% dragast frá.


Sækja reiknivél sem reiknar út launaþróunartrygginguna m.v. núverandi laun.

Kauptaxtar
Töluvert mikil uppstokun er á kaupstaxtakerfinu en kauptaxtarnir munu hækka um 21.000 við undirskrift, 17.500 1.mars árið 2009 og 10.500 1.jan. árið 2010.  Fimm ára kauptaxtinn endar í 254.000 við lok samningstímans.  Þá hefur verið samið um nýjan millilaunaflokk fyrir iðnaðarmenn með viðurkenningu á starfsréttindum erlendis frá og nýjan launaflokk iðnaðarmanna með 5 ára sveinspróf og meistararéttindi.
Sækja launatöflur hér.

Starfsmannaskírteini
Samkomulag náðist um starfsmannaskírteini og liggur fyrir að þau munu koma til framkvæmda á miðju næsta ári.  Þá hefur verið gengið frá samningi um virkjunarmál sem leysir af hólmi sérstakan Virkjunarsamning. 

Endurmenntun
Sátt er um nýtt ákvæði um endurmenntun í vinnutíma þannig að starfsmaður getur nýtt sér allt að 16 vinnustundir á launum til að sækja viðurkennda endurmenntun enda leggi hann til sambærilegan tíma á móti.  Starfsmaður sem hefur verið í 3 ár í sama fyrirtæki getur nýtt allt að 40 stundir til endurmenntunar og leggur sambærilegan tíma á móti.

Orlof
Samið hefur verið um lengingu orlofs og getur það verið allt að 30 dagar eftir störf í 10 ár hjá sama fyrirtæki og mun það koma til framkvæmda á næstu tveimur árum.  Einnig hefur verið gerð tilfærsla á orlofsrétti innan starfstíma í starfsgrein og starfstíma hjá fyrirtæki.  Starfstími nema í fyrirtæki telst nú með í ávinnslu réttinda varðandi orlof.

Hvað framhaldið varðar þá verður samningurinn kynntur rækilega í aðildarfélögum Samiðnar og síðan afgreiddur af þeim til samþykktar eða synjunar.

Í tengslum við kjarasamninginn sendi ríkisstjórnin frá sér yfirlýsingu um aukin félagsleg réttindi í húsnæðismálum, skattamálum, barnabótum, starfsmenntamálum o.fl. 

Sjá reiknivél sem reiknar út launaþróunartrygginguna m.v. núverandi laun.

Sjá yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Sjá samninginn í heild.

Sjá launatöflur.

Sjá sameiginleg mál.